Píratar ættu að stofna trúfélag og hætta á þingi

Í gær átti að vera umræða í þinginu um stjórnmál. Innlegg formanns Samfylkingarinnar í umræðunni var að hvíla þyrfti Sjálfstæðisflokkinn og við ætti að taka stjórn sem hefði meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.

Ef marka má málflutning þingmanna Samfylkingarinnar svo lengi sem ég man felst sköpunarkrafturinn, framsýnin og hugrekkið í því að hækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga svo að stjórnmálamenn geti ráðstafað meiri peningum eftir eigin geðþótta, sem þeir kalla gjarnan réttlætismál. Að vísu má kalla það talsvert hugrekki að hafa þá stefnu að rýra kjör almennings en það hefur ekkert með sköpunarkraft og framsýni að gera.

Fulltrúi Pírata tókst í umræðunni um stjórnmálin, eins og öðrum þingmönnum flokksins hingað til, að minnast ekkert á stjórnmál. Kjósendur eru því enn í þoku um hugmyndafræði, framtíðarsýn og stefnu flokksins í mikilvægum málaflokkum. Þess í stað fengum við að heyra sömu ræðuna einu sinni enn um spillingu og siðleysi annarra. Af hverju stofna þeir ekki trúfélag eða siðbótarfélag og hætta þessu stjórnmálavafstri?

Ef það á að hvíla Sjálfstæðisflokkinn þurfa aðrir að hafa burði til að taka við stjórn landsins. Þá þarf að hætta þessari endalausu sýndarmennsku og sýna ábyrgð og þora að taka vindinn í fangið þegar þarf.

Mér sýnist langt í land í þeim efnum.