Ósýnilegu konurnar!

Hanna Katrín Friðriksson skrifar:

Ósýnilegu konurnar!

Á þingfundi fyrr í dag var sérstök umræða um velsældarhagkerfið þar sem m.a. var rætt um tillögur um 39 félagslega, umhverfislega og efnahagslega mælikvarða sem verði lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði á Íslandi.

Ég gerði holótta gagnasöfnun að umtalsefni í ræðu minni um velsældarhagkerfið. Holurnar eru þar sem gögn um konur ættu að vera. Dæmin eru sláandi, og væru jafnvel sum bráðfyndin ef þetta væri ekki svona óþolandi:

„Herra forseti. Mig langar að ræða notkun gagna í tengslum við þessa mælikvarða á hagsæld og lífsgæði. Nýleg bók Invisible Women: Exposing Data Bias in a World Designed for Men eftir bresku blaðakonuna Caroline Criado Perez fjallar um hvernig holótt gögn - þar sem heimurinn hefur verið hannaður með karla sem mælistiku fyrir almenning allan - geta haft mjög alvarlegar afleiðingar; sér í lagi þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, þar sem konur deyja vegna skorts á upplýsingum um áhrif sjúkdóma og lyfja á þær. Slíkt er rannsakað með tilliti til karla, jafnvel þegar um er að ræða lyf sem eru meira notuð af konum.

Bókin byggir á gríðarlegri rannsóknarvinnu og skipar heimildaskráin rúmlega fjórðung lengdar hennar. Dæmin eru fjölmörg. Meðal þeirra má nefna að hitastig á hefðbundinni skrifstofu að meðaltali fimm gráðum of kalt miðað við það sem konum þykir að jafnaði þægilegt og meðalsnjallsími er 5,5 tommur að stærð, óþægilega stór fyrir hendur flestra kvenna. Vinnufatnaður er í flestum tilvikum miðaður við karlkyns fatastærðir sem þýðir að hann veitir konum minni vernd og getur jafnvel verið þeim hættulegur. Einhver muna svo eftir frétt frá því í vor um að það hefði þurft að aflýsa sögulegum viðburði sem átti að vera fyrsta geimganga sögunnar þar sem aðeins konur kæmu við sögu. Ástæðan, það var ekki til nema einn kvenbúningur.

Bókinni um ósýnilegu konurnar er skipt í í kafla um daglegt líf, vinnustaði, hönnun samgöngumannvirkja og annarra burðarvirkja í samfélaginu og heilbrigðiskerfi. Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands hefur mælt sérstaklega með bókinni fyrir fólk sem vinnur við að setja stefnur eða við ákvarðanatöku út um allan heim.

Ég vil hvetja hæstvirtan forsætisráðherra til að hlusta og taka tillit til þessara þátta. Ekki nota holótt gögn þegar kemur að því að setja mælikvarða og viðmið í þágu velsældar okkar allra.“

Nýjast