Lýðræði til framtíðar

Sigurbjörg Erla og Hákon Helgi skrifa:

Lýðræði til framtíðar

Á dögunum lögðu Píratar á Alþingi fram frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Markmið frumvarpsins er að skýra og auka getu sveitarfélaga til þess að kalla til borgarafundar annars vegar og til þess að halda íbúakosningar um einstök málefni hins vegar. Í dag segir í sveitarstjórnarlögum að óski minnst 10% þeirra sem eiga kosningarétt í sveitarfélagi eftir því að haldinn verði borgarafundur skuli sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Jafnframt segir að óski minnst 20% kosningabærra eftir íbúakosningu um einstök málefni er sveitarfélagi skylt að verða við þeirri ósk eigi ári síðar en hún berst. Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykktum sínum en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem hafa kosningarétt.

Undanfarin ár hefur verið ákveðin lýðræðisvakning í samfélaginu. Vettvangurinn „Okkar Kópavogur“ eru frábært dæmi um afbrigði þess. Þar gefst íbúum kostur á að leggja til og kjósa um framkvæmdir í nærbyggð og hefur það reynst vel. Þetta er afbrigði af lýðræði vissulega, en framtíðarsýn okkar Pírata er að auka til muna vægi lýðræðis þegar kemur að ákvörðunum um stærri og mikilvægari mál. Til þess að útskýra þá afstöðu betur er nauðsynlegt að greina betur frá rótinni að kerfinu sem við búum við í dag. Núverandi fyrirkomulag stjórnsýslu og fulltrúalýðræðis er í raun arfleið fortíðar sem er að mörgu leyti úrelt. Það var innleitt á tímum þar sem nýjasta þekking á miðlun upplýsinga samanstóð af prentuðu efni og gamaldags pósti.

Hugmyndafræðingar fortíðar hefðu ekki getað gert sér í hugarlund hversu miklar breytingar áttu eftir að verða, og hugtök eins og „rafræn stjórnsýsla“, tölvupóstur og upplýsingamiðlun með hraða ljóssins ekki einu sinni vísindaskáldskapur. Öldin er bókstaflega önnur í dag. Það sem eitt sinn var nauðsynlegt vegna erfiðleika í miðlun upplýsinga, á ekki við í dag.

Málskots- og frumkvæðisréttur eru mikilvæg aðhaldstæki fyrir íbúa sveitarfélaga til að kalla til samtals og mikilvægt er því séu gerð betri skil í lögum. Þetta er sjálfsagt skref í takt við auknar lýðræðiskröfur samfélagsins, og ekki veitir af ef raunverulegur vilji er til þess að auka traust á stjórnkerfinu.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi
Hákon Helgi Leifsson, varabæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi

Nýjast