Kunningjakonu á facebook bjargað á nokkrum mínútum

Fyrir tæpum 18 árum eignaðist ég son.  Hann var með alvarlegan hjartagalla og þurfti að fara erlendis í aðgerð.  Allt gekk upp og í dag er hann hraustur og heilbrigður, þökk sé afburða heilbrigðisstarfsfólki. 

Talsverður kostnaður féll á mig vegna þessa, ég var ekki illa stæður en heldur ekki efnaður svo að þetta var dálítill skellur. Velviljað fólk efndi til samskota og safnaði peningum sem að komu sér afar vel.  Ég var þessu fólki mjög þakklátur en samt voru tilfinningar mínar blendnar.  Stoltið var sært. 

Það hafa ekki allir efni á að senda börnin sín í íþróttir.  Ég hef bæði í gegnum félagsþjónustu og presta hér á Akureyri boðið skjólstæðingum þessara aðila að æfa júdó frítt.  Enginn hefur þegið það boð, samt veit ég um mörg börn sem langar til að koma.  Ástæðan er sú að foreldrarnir eiga erfitt með að senda barnið sitt á þessum forsendum, að fá eitthvað frítt vegna aðstæðna sinna.

Í dag sá ég kunningjakonu mína á Facebook skrifa í angist sinni að hún hefði ekki efni á insúlín sem að hún þarf nauðsynlega. Fólk fór strax að safna handa henni peningum fyrir lyfinu, það tók nokkrar mínútur.  Hún var þakklát en beygð yfir því að þurfa að fara þessa leið til að lifa.

Við viljum langflest hjálpa hvort öðru, þrátt fyrir allt er samhygð okkur eiginleg.  En það er erfitt að þiggja.  Þess vegna borgum við skatta með glöðu geði svo að það sé séð um þá sem eiga erfitt, þannig  að það fólk geti haldið reisn sinni í erfiðleikum. 

Sjálf getum við lent í sömu sporum, ég þekki það vel.  Það er auðveldara að þiggja úr sjóðum sem að maður hefur sjálfur borgað í.

En svo er það litli minnihlutinn sem að virðist ekki búa yfir þessari samhygð. 

Af hverju fær hann að ráða?