Já, Heiðrún Lind Marteinsdóttir virðum staðreyndir!

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Já, Heiðrún Lind Marteinsdóttir virðum staðreyndir!

Svar við pistli Heiðrúnar í Fréttablaðinu. Sjá pistil Heiðrunar hér.

Staðreynd er sú að þar sem útgerðarmenn hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi hafa þeir einhliða ákveðið hvert fiskverð á uppsjávarafla eigi að vera, það er bláköld staðreynd!

Einhliða verðlagning útgerðarmanna á alls ekkert einungis um makrílinn, heldur einnig aðrar uppsjávartegundir eins loðnu og síld, enda liggja fyrir gögn þar sem fram kemur gríðarlegur verðmunur á öllum þessum tegundum milli Noregs og Íslands.

Verðlagsstofa skiptaverðs benti réttlega á að í Noregi var meðalverð á makríl frá árinu 2014 til 2018 227% hærra í Noregi en hér á landi.

Að reyna að afvegaleiða þessa umræðu með því að tala um á hvaða tíma verið er að veiða makríl og við séum einungis búin að vera að veiða þessa fiskitegund frá ári 2010 er grátbroslegt.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að verðmunur upp á allt að 300% á sér ekki neinar haldbærar skýringar aðrar en þær að útgerðarmenn sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi eru að stunda stórfellt svindl og svínarí á íslenskum sjómönnum og um leið á þjóðinni allri.

Um þetta svindl og svínarí útgerðarmanna hefur verið deilt og hart tekist á um í mörg ár og þetta svindl er umtalað á meðal sjómanna á uppsjávarskipum. Eðlilega þora íslenskir sjómenn ekki að stiga fram og gera athugasemdir, því afleiðingarnar geta verið alvarlegar fyrir þann sem það gerir. Sú ömurlega staðreynd er einnig umtöluð á meðal sjómanna.

Í guðanna bænum Heiðrún ekki reyna að telja okkur sem þekkjum til málsins trú um að það sé einhver geislabaugur sem svífi yfir hausamótunum á íslenskum útgerðarmönnum, þegar kemur að verðlagningu á uppsjávarafla, sérstaklega þegar það glittir frekar í tvö rauð horn á höfði útgerðarmanna þegar kemur að þessum málum.

Eins og áður sagði þá reynir Heiðrún að afvegaleiða umræðuna með því að tala um mismunandi gæði, betri aðkomu að mörkuðum og við séum rétt að byrja að læra á að veiða makríl.

En hvað með verðmun á síldinni? Nú liggur fyrir að Margrét EA landaði í Noregi í tvígang síld í Noregi í september á þessu ári og fékk 127% hærra verð en ef landað hefði verið á Íslandi. Hvað með þegar Norskuskipin hafa verið að veiða loðnu í íslensku lögsögunni og jafnvel úr sömu torfu og íslensku skipin og landað í vinnslu hér á landi? Það liggja fyrir staðfestingar á að greitt hefur verið tugum prósenta hærra verð til Norskuskipanna en íslenskuskipanna þrátt fyrir þessar staðreyndir og þetta veit Heiðrún mætavel.

Nei, íslenskir sjómenn hafa sakað útgerðarmenn um langt árabil um stórkostlegt svindl og svínarí og þeirri forsendu lagði ég fram tillögu á samningafundi, sem þú Heiðrún varst m.a. á.

Tillagan byggðist á því að skipuð yrði algerlega óháð rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að rannsaka þennan gríðarlega verðmun á uppsjávarafla á milli Íslands og Noregs. Ég veit að Heiðrún man þau ofsafengnu viðbrögð sem komu frá sumum útgerðarmönnum sem sátu þennan fund og þið höfnuðuð þessari tillögu með miklum látum.

Af hverju höfnuðu þið slíkri tillögu ef þið hafið ekkert að fela og allt eigi sér eðlilegar skýringar eins og þú ert að reyna að halda fram?

Að sjálfsögðu voru þessi sturluðu viðbrögð enn ein staðfesting á þeim rökstudda grun á því að útgerðarmenn með veiðar og vinnslu ástundið svindl og svínarí á íslenskum sjómönnum og þjóðinni allri.

En eru þá fyrirtæki í sjávarútvegi ekki þá sammála að skipuð verði algerlega óháð rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem fái víðtækar heimildir til gagnaöflunar til að kanna og rannsaka verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi og svara hví í ósköpunum þessi gríðarlegi verðmunur eigi sér stað?

Virðum staðreyndir sjómanna um rökstuddan grun um svindl og svínarí af hálfu útgerðarmanna og skipum óháða rannsóknarnefnd sem hefði víðtækar heimildir til gagnaöflunar.

Nýjast