Ísland þarf sterkara pólitískt bakland

Þorsteinn Pálsson skrifar:

Ísland þarf sterkara pólitískt bakland

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna eru athyglisverð. Áhugi þeirra á að Ísland tengist fjárfestingaverkefninu Belti og braut er í réttu hlutfalli við þá staðfestu Bandaríkjanna að koma í veg fyrir það.

Bandaríkin og Kína vilja örugga fótfestu hér

Þessi tvö stórveldi ætla sér að ná undirtökum á Norðurskautssvæðinu. Þau vilja bæði ná efnahagslegri og pólitískri fótfestu á Íslandi í þeim tilgangi. Að auki vilja Bandaríkin efla hér varnarviðbúnað til þess að styrkja stöðu sína gegn Kína alveg óháð öryggishagsmunum Íslands.

Ísland er í vandasamri stöðu. Þetta eru alveg nýjar aðstæður. Þær kalla ný viðbrögð og nýja sýn á stór utanríkispólitísk viðfangsefni.

Kína mun áður en langt um líður taka við af Bandaríkjunum sem mesta efnahagsveldi í heimi. Við þurfum að eiga sem mest og best viðskipti í báðar áttir. Klípan er sú að Kína stendur ekki fyrir sömu lýðræðislegu gildi og vestrænar þjóðir. Og Bandaríkin eru að fjarlægjast mörg þau gildi sem áður sameinuðu þær.

Bandaríkin vinna gegn hagsmunum Íslands í loftslagsmálum og Evrópusamvinnu

Bandaríkin beita sér nú gegn hagsmunum Íslands í loftslagsmálum. Þau stefna líka að því að grafa undan þeirri efnahagslegu samvinnu í Evrópu sem hefur dugað Íslandi best. Bandaríkin eru því ekki bandamaður í þeim sama nána skilningi og áður var.

Tilgangur Bandaríkjanna með tilboði um samráð í efnahagsmálum virðist vera tvíþættur: Annars vegar sá að liðka fyrir heimild til frekari hernaðaraðstöðu hér í togstreitunni við Kína. Hins vegar sá að reyna að draga Ísland smátt og smátt frá Evrópu í efnahagslegu og viðskiptalegu tilliti. Það er sama sjónarmið og liggur að baki stuðningi þeirra við Brexit.

Ýmis tækifæri en þeim fylgir aukin áhætta

Í þrýstingi beggja stórveldanna felast ýmis tækifæri fyrir Ísland. En það eru líka augljósar pólitískar hættur. Við þurfum að takast á við þessar aðstæður með skýra sýn og vel skilgreind markmið. Það er misskilningur að þetta sé einföld endurtekning á kaldastríðstímanum.

Í þessum samskiptum þurfum við meiri pólitískan styrk en við búum ein og sér yfir. Stjórnmálafræðingar kalla það að þjóðir finni sér skjól í samstarfi með öðrum ríkjum.

Í byrjun sjötta áratugarins beindum við stórum hluta utanríkisviðskipta okkar til Sovétríkjanna vegna hafnbanns í Bretlandi. Augljóst er að þau hefðu getað nýtt sér þessa stöðu til að ná umtalsverðum pólitískum áhrifum hér ef Ísland hefði ekki átt sterkt pólitískt skjól í Atlantshafsbandalaginu.

Þrýstingur Kína og Bandaríkjanna setur spurninguna um fulla Evrópusambandsaðild aftur á dagskrá

Pólitískt skjól Evrópuríkja er nú miklu fremur í Evrópusambandinu en Atlantshafsbandalaginu, án þess að lítið sé gert úr gildi þess. Pólitískt vægi bandalaganna hefur einfaldlega breyst.

Í þessu ljósi liggur í augum uppi að mikilvægt er að taka aftur á dagskrá spurninguna um fulla aðild að Evrópusambandinu. Við þurfum mjög öflugt pólitískt bakland til þess að geta mætt þessum stórveldum með sjálfstæð markmið sem þjóna íslenskum hagsmunum.

Það er enginn annar kostur en Evrópusambandið í þeim efnum. Miklu öflugri þjóðir en við þurfum á slíku skjóli að halda við sambærilegar aðstæður.

Samvinna Norðurlanda líka mikilvæg

Einnig er ljóst að Norðurlönd þurfa að hafa með sér mun meiri samvinnu til að styrkja pólitíska stöðu sína og mynda sameiginlegt bakland í þessum tilgangi. Þau þurfa líka að taka að sér aukin verkefni.

Á miklu veltur einnig að samstaða Evrópu haldist. Uppgangur popúlista í Evrópu og Ameríku er alvarleg ógn við íslenska hagsmuni. Í því samhengi getur samstaða Norðurlanda skipt máli.

Nýjast