Engar breytingar nema forsætisráðherra skipti um skoðun eða þjóðin skipti um forsætisráðherra

Þorsteinn Pálsson skrifar:

Engar breytingar nema forsætisráðherra skipti um skoðun eða þjóðin skipti um forsætisráðherra

Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um að opna ekki fyrir umræðu um stærstu spurninguna sem Samherjamálið kveikti. Það er spurningin um eðlilegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Eðli máls samkvæmt er það útfært í almennum lögum.

Með auðlindaákvæði í stjórnarskrá er aftur á móti unnt að hafa áhrif á hvernig slík gjaldtaka er hugsuð. Ríkisstjórnin er líka andvíg því að slíkt ákvæði hafi áhrif til breytinga á núverandi skipan.

Í gegnum tíðina hafa komið fram margvíslegar tillögur um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. En eins og sakir standa eru það fyrst og fremst þrjár útgáfur sem óhjákvæmilegt er að skoða. Í fyrsta lagi er það tillaga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, í öðru lagi tillaga stjórnlagaráðs og í þriðja lagi tillaga auðlindanefndar Jóhannesar Nordals.

Hugtakið þjóðareign

Allar þrjár útgáfurnar skilgreina fiskveiðiauðlindina sem þjóðareign. Að formi til samræmast núverandi lög um fiskveiðistjórnun slíku ákvæði. Nýtt ákvæði í stjórnarskrá sem gengur ekki lengra en að skilgreina auðlindina sem þjóðareign leiðir þar af leiðandi ekki sjálfkrafa til neinna breytinga.

Lögin um stjórn fiskveiða mæla fyrir um ótímabundna úthlutun aflahlutdeildar. En um leið er kveðið á um að slík úthlutun sé ekki óafturkræf. Með hversdagslegra tungutaki merkir þetta, að veiðirétturinn gildir til eilífðar, en þó er heimilt að stytta hann. Komi til þess að hann sé styttur ákveða dómstólar hver tímamörkin eigi að vera svo ekki komi til eignarnámsbóta. Þetta er sem sagt háð mikilli óvissu.

Tillaga Katrínar Jakobsdóttur gengur út á að halda þessari óvissu skipan óbreyttri. Stærstu útgerðirnar undir forystu Samherja hafa talað fyrir því.

Stjórnarskráin kveði á um tímabundna úthlutun nýtingarheimilda

Í tillögu auðlindanefndar var fyrst lagt til að í stjórnarskrá skyldi kveðið á um að nýtingarréttur fiskveiðiauðlindarinnar skyldi vera tímabundinn. Tillaga stjórnlagaráðs gerir einnig ráð fyrir því. En tillaga Katrínar Jakobsdóttur hafnar slíkum hugmyndum.

Í áliti auðlindanefndar kemur fram að tímabundinn nýtingarréttur á sameiginlegum aðlindum er meginregla meðal flestra þjóða. Nefndin rökstyður í áliti sínu að slík skipan sé nauðsynleg til þess að þjóðareignarákvæðið sé í raun virkt og geri meira en að uppfylla formið eitt.

Ákvæði af þessu tagi myndi leiða til breytinga á fiskveiðistjórnarlögunum. Þær mætti gera með tvennum hætti. Annað hvort með því að mæla fyrir um tiltekinn nýtingartíma í lögum eða ákveða þann tíma sem þarf til uppsagnar á nýtingarheimildum.

Í raun er þetta það lykil atriði, sem deilurnar um auðlindaákvæðið snúast um. Tillögur auðlindanefndar og stjórnlagaráðs gera breytingar óhjákvæmilegar. Tillaga Katrínar Jakobsdóttur útilokar þær ekki en leiðir ekki sjálfkrafa til þeirra.

Hvað á að leggja til grundvallar auðlindagjaldi?

 

Tillaga Katrínar Jakobsdóttur gerir heldur ekki ráð fyrir að stjórnarskrárákvæðið hafi nokkur áhrif á hvað á að leggja til grundvallar gjaldtöku eða hversu hátt eða lágt gjaldið á að vera. Hún útilokar ekki breytingar með almennum lögum en gerir ekki ráð fyrir þeim.

Í tillögu stjórnlagaráðs er talað um, að „fullt“ gjald skuli koma fyrir nýtingarréttinn. Ýmsir staðhæfa að þetta þýði sjálfkrafa markaðsverð. Það stenst ekki. Eftir sem áður yrði það hlutverk löggjafans að ákveða hvað teldist „fullt“ verð. Forsætisráðherra telur til að mynda, að ríkisstjórn hennar hafi ákveðið fullt verð. Ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá haggar ekki slíku mati.

Tillaga auðlindanefndar gerir með skýrum hætti ráð fyrir því að tengsl verði á milli varanleika nýtingarheimilda og verðsins sem fyrir þær sé greitt. Hún gengur lengst að því leyti.

Segja má að það gjald sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ákveðið fyrir nýtingarréttinn væri mjög hátt ef heimildirnar væru uppseigjanlegar með eins árs fyrirvara. Það er hins vegar ekki veruleikinn. Ef á hinn bóginn væri litið svo á að gjaldið kæmi fyrir fimmtán til tuttugu ára afnot má fullyrða að það teldist vera mjög lágt. 

Niðurstaða

Þegar þessar þrjár útgáfur af auðlindaákvæðum í stjórnarskrá eru bornar saman má segja að niðurstaðan sé þessi: Tillaga Katrínar Jakobsdóttur breytir engu. Tillögur auðlindanefndar og stjórnlagaráðs munu leiða til afgerandi breytinga varðandi afmörkun nýtingarheimilda í tíma: Því lengri tími því hærra gjald, því skemmri tími því lægra gjald.

Tillögur auðlindanefndar og stjórnlagaráðs fela í sér að löggjafinn hefur val um tvo kosti til að ákveða í almennum lögum hvernig gjaldtöku fyrir tiltekinn tíma skuli háttað. Annars vegar að það verði ákveðið samkvæmt pólitísku mati á Alþingi eða á markaði með uppboði.

Í tíð ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks stöðvaði Sjálfstæðisflokkurinn að tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar um fyrri leiðina kæmist inn á borð ríkisstjórnar. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur VG haft forystu um að fella tillögur frá Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum um  báðar leiðirnar.

Því er ljóst að engar breytingar verða í þessum efnum nema forsætisráðherra skipti um skoðun eða þjóðin skipti um forsætisráðherra.

Nýjast