Svandís sýnir sitt rétta andlit og getur ekki falið valdhrokann

Svandís sýnir sitt rétta andlit og getur ekki falið valdhrokann

Svandís Svavarsdóttir virðist hafa misst tökin á starfi sínu sem heilbrigðisráðherra. Nú er hún farin að ráðast gegn læknum og stjórnendum Landsspítalans og gagnrýnir þá fyrir það að segja skoðanir sínar. Þeir hafa hins vegar sagst álíta það skyldu sína að segja sannleikann um ástandið á spítalanum opinberlega. Svandís vill ekki heyra þá „tala svona“ eins og hún orðaði það þegar hún skammaðist yfir að þeir skyldu segja sannleikann í fjölmiðlum.

 

Með því að reyna að koma í veg fyrir opna og hreinskilna umræðu um það ófremdarástand sem ríkir í málefnum sjúkrahúsa á Íslandi, virðist Svandís vilja halda staðreyndum frá almenningi. Hún ætlar að velja það sjálf sem má segja um sjúkrahúsin. Það þarf að vera þóknanlegt þeim yfirvöldum sem bera ábyrgð á ástandinu, það þarf að vera henni sjálfri þóknanlegt. Hún vill ákveða hvað er rétt og hvað er rangt.

 

Þarf þetta gerræðislega viðhorf Svandísar Svavarsdóttur að koma á óvart? Nei. Það er ekki að sjá betur en hún hafi alltaf viljað Sovét-fyrirkomulag: Ein skoðun, einn sannleikur, einn flokkur, einn valdhafi.

 

Nú kemur Svandís fram og ræðst gegn læknastéttinni og gerir lítið úr viðvörunum þeirra og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins sem eru að bugast vegna ástandsins á sjúkrahúsum landsmanna. Núverandi ríkisstjórn hefur svikið kosningaloforð um eflingu heilbrigðiskerfisins strax eftir síðustu kosningar. Allir flokkar lofuðu því fyrir kosningar og eru allir ábyrgir fyrir svikunum. Svandís er þó sá ráðherra sem hefur helibrigðismálin á sinni könnu og verður því að taka skellinn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Að undanförnu hafa verið birtar ýmsar fréttir um nöturlegt ástand á sjúkrahúsunum. Ekki er unnt að veita sjúkum viðunandi þjónustu og fólk þarf að liggja í sjúkrarúmum frammi á gangi og inni í geymsuherbergjum. Þetta hefur verið sýnt í sjónvarpi og með fréttum og myndum í blöðum þannig að ekkert fer á milli mála. Þegar ástandið er með þessum hætti þá gagnast ráðherra ekkert að koma fram og buna út úr sér innantómum slagorðum og ósannindum. Fólk sér í gegnum það.

 

Svandís er rökþrota og þá kemur hrokinn enn betur í ljós. Í stað þess að svara gagnrýni af auðmýkt og með málefnalegum hætti, grípur hún til valdhrokans og hótar viðmælendum beinlínis.

Þeir sem hafa fylgst með stjórnmálaferli hennar eru ekkert hissa á þessu. Svandís hefur komist upp  með allt of margt. Meðal annars að brjóta lög og hljóta dóma fyrir embættisafglöp eins og raunin var þegar hún átti sæti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þrátt fyrir lögbrotin var henni ekki gert að víkja út þeirri ríkisstjórn.

 

Vinstrimaðurinn Illugi Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður, hefur fylgst með framkomu Svandísar Svavarsdóttur gagnvart starfsfólki Landsspítalans að undanförnu. Hann segir að nú hafi Svandís horfið inn í völundarhús hrokans. Hún veldur Illuga svo miklum vonbrigðum með framkomu sinni að honum sé skapi næst að setjast niður og grenja.

 

Flesta landsmenn langar til að grenja vegna ástandsins í heilbrigðiskerfinu. En ríkisstjórnin skilur ekkert í ólund fólksins enda sé verið að byggja nýjan Landsspítala sem ætlunin er að taka í notkun eftir fjögur eða fimm ár.

 

Það dugar skammt fyrir þá sem þurfa að liggja frammi á gangi í bráðamóttöku spítalans. Þeir munu trúlega halda áfram að grenja eins og Illugi Jökulsson.

Nýjast