Kristján Þór og Ásmundur undirstrika spillinguna í Sjálfstæðisflokknum

Kristján Þór og Ásmundur undirstrika spillinguna í Sjálfstæðisflokknum

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra virðist ætla að þrásast við og sitja sem fastast í ráðherraembætti. Tengsl hans við Samherja og forystumenn fyrirtækisins gera það að verkum að hann er ótrúverðugur sem ráðherra sjávarútvegsmála og ætti að sjá sóma sinn í að víkja sem fyrst. Hefði raunar átt að stíga til hliðar strax og málið kom upp. Með þessu er ekki verið að taka afstöðu til Samherjamálsins en ráðherra hefði átt að draga sig út úr sviðsljósinu á meðan rannsókn stendur yfir. Það er einnig athyglisvert að formaður Sjálfstæðisflokksins annars vegar og forsætisráðherra hins vegar skuli ekki hafa gripið í taumana og knúið Kristján Þór til afsagnar.

Vafalaust hefur mikið gengið á að tjaldabaki vegna veikrar stöðu Kristjáns Þórs í ríkisstjórninni. Og nú er komin einhver sýndarniðurstaða sem gengur út á að Kristján Þór komi ekki að málum sem snúa að Samherja og dótturfélaginu ÚA. Orðið yfir þetta er KATTARÞVOTTUR. Þessi niðurstaða er einskis virði og undirstrikar einungis ráðleysi ríkisstjórnarinnar í þessu vandræðamáli. Kjósendur sjá þetta enda hrynur fylgið af ríkisstjórninni. Samkvæmt nýbirtri skoðanakönnun MMR hafa ríkisstjórnarflokkarnir tapað 10 þingmönnum á kjörtímabilinu og stuðningur við stjórnina er kominn niður í 39% sem hlýtur að vera nánast óþolandi fyrir forystu stjórnarflokkanna.

Ekki bætti Kristján Þór Júlíusson veika stöðu sína um helgina þegar hann ásakaði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, um pólitíska sýndarmennsku þegar hún gagnrýndi að Kristján Þór skuli ekki sýna þá sómakennd að víkja úr ríkisstjórninni. Helst mátti skilja á ráðherranum að vandræðagangurinn út af Samherjamálinu væri stjórnarandstöðunni að kenna! Annað hvort er Kristján Þór svona siðblindur eða þá er honum fyrirskipað að hreyfa sig hvergi þó mikið gangi á og þrýstingur á hann haldi áfram að vaxa.

Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur einnig verið í sviðsljósinu vgna spillingarmála undanfarna daga. Það er Ásmundur Friðriksson sem stöðugt virðist vera „úti að aka“ og senda Alþingi reikninginn. Ásmundur var kjörinn á þing fyrir Suðurkjördæmi vorið 2013. Á þessum sex árum hefur hann rukkað Alþingi um 30 milljónir króna vegna bílakostnaðar og aksturspeninga. Um er að ræða langleiðina í 5 milljónir á ári að meðaltali. Fáir trúa því að um raunverulegan kostnað sé að ræða. Flokkur Ásmundar hefur varið gerðir hans og með því staðfest hve sáttur flokkurinn er við spillt framferði kjörinna fulltrúa sinna. Ásmundur er dýrastur allra þingmanna í rekstri þegar kemur að kostnaði við akstur og bílaútgerð.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur gengið harðast fram í gagnrýni á Ásmund vegna þessa vafasama kostnaðar sem fallið hefur á Alþingi. Í stað þess að skammast sín og biðjast afsökunar snérist Ásmundur til varnar, studdur af félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, og kærði Þórhildi Sunnu þannig að hún var ávítuð – fyrir að segja sannleikann!

Ásmundur lét ekki þar við sitja heldur klagaði hana síðan til Evrópuráðsins og krafðist refsingar. Það jafnast á við það að kasta steinum út glerhúsi.

Sumir kunna ekki að skammast sín. Kjósendur munu taka afstöðu til þannig þingmanna við fyrsta tækifæri.

Nýjast