Jón Gunnarsson mun fá mótframboð frá konu

Jón Gunnarsson mun fá mótframboð frá konu

 Hringbraut var fyrst með þá frétt í gær að Jón Gunnarsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, gæfi kost á sér í embætti ritara Sjálfstæðisflokksins sem kosið verður í á flokksráðsfundi eftir viku.

Náttfari greindi frá því að Jón Gunnarsson eða Brynjar Níelsson byðu sig fram. Þó einungis annar hvor þeirra því þeir eru bandamenn. Niðurstaðan varð sú að Jón hefur lýst yfir framboði.

 

Í lok umfjöllunar Náttfara í gær sagði: „Því er spáð hér að Jón Gunnarsson verði fyrir valinu og að Brynjar Níelsson taki við formennsku í utanríkismálanefnd.“ En Áslaug Arna gegndi formennsku í utanríkismálanefnd auk ritaraembættisins. Brynjar Níelsson brást við í gærkvöldi á mbl.is og sagðist fyrr liggja dauður en taka við einhverju af Áslaugu Örnu. Þetta viðhorf Brynjars sýnir nánast fyrirlitningu á nýja dómsmálaráðherranum. Varla er unnt að tala með skýrari hætti en það er einmitt einn af kostum Brynjars hve hreinskilinn hann er.

 

Fullvíst má telja að konur í flokknum reyni að koma sér saman um kvennaframboð gegn Jóni Gunnarssyni. Ekki er víst að samstaða náist því talið er að nokkrar konur sækist eftir þessu embætti og ólíklegt að þær komi úr sömu fylkingum flokksins sem er talsvert brotinn og klofinn. Þannig gæti Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sóst eftir ritaraembættinu. Hún er sögð hafa takmarkalausan metnað og ótakmarkað sjálfsálit. Hún fer fyrir þeim hluta minnihlutans sem sættir sig ekki við leiðsögn Eyþórs Arnalds en hún, Katrín Atladóttir og Valgerður Sigurðardóttir mynda bandalag gegn hinum borgarfulltrúum flokksins í minnihlutanum í Reykjavík. Eyþór ræður ekki við borgarstjórnarflokkinn og er sagður mjög órólegur vegna ástandsins. Ýmsir telja að Hildur Björnsdóttir sé að undirbúa það að velta Eyþóri úr sæti oddvitans og taka það sjálf í næstu kosningum. Þeir sem styðja Eyþór munu ekki vilja að Hildur nái ritaraembættinu til að styrkja stöðu sína innan flokksins.

 

Einhverjir hafa velt upp nafni Völu Pálsdóttur sem er tengdadóttir Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum. Guðbjörg er eigandi Ísfélags Vestmannaeyja og fjölda fyrirtækja í iðnaði, fjölmiðlun og verslun. Hún er trúlega í hópi best stæðu Íslendinganna og einn helsti flokkseigandi Sjálfstæðisflokksins. Því kann einhverjum að þykja við hæfi að mikill flokkseigandi eigi fulltrúa í æðstu stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ekki verður hér spáð fyrir um það hvort Vala njóti stuðnings.

 

Svo má ekki gleyma fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, sem þykir hart leikin eftir að hafa hrökklast úr embætti á síðasta voru eftir dóma um embættisafglöp. Sigríður á sitt bakland og mörgum finnst að illa hafi verið farið með hana. Hún gæti átt nokkra samúð meðal flokksráðsmanna á fundinum næsta laugardag. Hún gæti boðið sig fram og hugsað sem svo: Allt að vinna – engu að tapa.

 

 

Alla vega má gera ráð fyrir því að það komi til kynjauppgjörs á flokksráðsfundinum.

Nýjast