Guðlaugur Þór tekur hart á lygum þjóðernissinna og hrekur þær

Guðlaugur Þór tekur hart á lygum þjóðernissinna og hrekur þær

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur svarað lygum sem birtust um fjölskyldu hans á netmiðlum í dag þar sem reynt var að læða því inn að Guðlaugur og kona hans gætu haft milljarða hagsmuni af þriðja orkupakkanum.

Ekki er minnsti fótur fyrir þessu. Hér er á ferðinni grófur atvinnurógur sem bendir til rökþrota andstæðinga þriðja orkupakkans sem utanríkisráðherra hefur talað fyrir á Alþingi. Ekki er vitað úr smiðju hvaða skrímsladeildarmanns þetta er komið. Nokkrir einangrunarsinnar liggja undir grun. Ráðherra hlýtur að fá það upplýst.

Örvænting þessa andstæðingahóps er nú alger eftir að fyrir liggur að málið muni fara í gegnum Alþingi með glans. Búið er að etja Frosta Sigurjónssyni á foraðið. Hann stendur fyrir undirskriftasöfnun þjóðernispopúlista sem vilja stöðva framgang málsins. Af orðum Frosta að dæma virðist hann ekki skilja um hvað málið snýst. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Frosti er úti að aka.

Miðflokksarmur Sjálfstæðisflokksins hefur ólmast gegn þriðja orkupakkanum án þess að fá nokkurn hljómgrunn fyrir hræðsluáróðri sínum. Fremst í þessum hópi hafa farið Davíð Oddsson, Styrmir, Tómas Ingi, Einar Hálfdánarson og Hannes Hólmsteinn. Þeir horfast nú í augu við ósigur þegar þingið afgreiðir málið. Örvæntingarráð þeirra er nú að tala fyrir frestun málsins fram á haust í þeirri von að þá verði ríkisstjórnin fallin og málið strandi þar með.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins virðist vera einhug í málinu og styður tillögur Guðlaugs Þórs. Nú er svo komið að Davíð Oddsson á enga bandamenn lengur í þingflokknum sem vilja sinna erindrekstri fyrir hann. Af sem áður var.

Væri ekki tilvalið að Miðflokksarmur Sjálfstæðisflokksins gengi bara í Miðflokkinn í heilu lagi? Og kæmist þannig heill heim.

Nýjast