Eru erlendir stóreignamenn hættulegri jarðareigendur en íslenskir?

Eru erlendir stóreignamenn hættulegri jarðareigendur en íslenskir?

Furðuleg umræða hefur verið í gangi að undanförnu um jarðakaup erlendra stóreignamanna. Þeir hafa keypt hér jarðir í langan tíma án þess að stjórnvöld hafi brugðist við nema þegar hinn kínveski Nubo vildi kaupa Grímstaði á Fjöllum fyrir 7 eða 8 árum. Þar er um að ræða eina landmestu jörð Íslands.

Það var hægt að stöðva Nubo því hann býr í Kína en ekki innan evrópska efnahagssvæðisins en óheimilt er að hamla gegn kaupum þeirra sem búa innan ESB og EES.

Þegar umræða um jarðakaup hófust fyrir nokkru vegna umsvifa bresks stóreignamanns í Vopnafirði og víðar á Norð-austurlandi, stukku ráðherrar til og sögðust ætla að leggja frumvörp fyrir Alþingi næsta vetur. Katrín Jakobsdóttir virtist koma af fjöllum og leit býsna kjánalega út með þessari yfirlýsingu.
Voru umrædd jarðakaup að koma henni á óvart? Bretinn hefur verið að kaupa upp flestar laxveiðijarðir í Vopnafirði á síðustu 5 til 10 árum eins og ítrekað hefur verið fjallað um í fjölmiðlum - og verið í fullum rétti til þess.

Vissi forsætisráðherra ekki af þessu? Fóru þessi viðskipti alveg fram hjá henni? Eða voru þessi viðbrögð bara dæmigerð sýndarmennska?

Ekki verður séð að löglegt sé að hamla gegn fjárfestingum íbúa á evrópska efnahagssvæðinu og ESB hér á landi miðað við skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum. Um hvað snýst þá bullið í Katrínu Jakobsdóttur og fleiri þingmönnum stjórnarflokkanna?

Ef erlendir jarðakaupendur eru svona hættulegir, hefðu stjórnvöld þá ekki átt að vera búin að bregðast við fyrir mörgum árum og það áður en þeir keyptu upp heilu dalina víða um land?

En eru þessir aðilar vondir eða óheppilegir? Eru þeir t.d. eitthvað verri eða öðru vísi en Íslendingar sem hafa flutt lögheimili sín til útlanda en eiga jarðir hér á landi. Gott dæmi um það er Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, sem hefur flutt lögheimili sitt til Sviss en á kostajarðir á Snæfellsnesi. Hver er munurinn? Ólafur er einungis nefndur sem dæmi um fjölda Íslendinga sem þannig er háttað um.

Stjórnmálamenn eru hvattir til að hlífa okkur við bulli þegar mikilvæg mál eru til meðferðar.

Nýjast