Áslaug Arna er að falla á fyrsta prófinu

Áslaug Arna er að falla á fyrsta prófinu

Nýr dómsmálaráðherra virðist ætla að gera alvarleg byrjendamistök þegar hún gengur ekki hreint til verks gagnvart Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra sem er rúinn trausti og alls óhæfur til að gegna þessu mikilvæga embætti. Mikil ólga er innan lögreglunnar í landinu. Átta af níu lögreglustjórum hafa lýst yfir vantrausti og ríkisendurskoðun er að hefja rannsókn á embætti ríkislögreglustjóra. Eðlilegt hefði verið að Haraldur stigi til hliðar á meðan rannsóknin fer fram. Nærvera hans mun trufla verkið og gera það ótrúverðugra.

Áslaug Arna hefði átt að fyrirskipa að ríkislögreglustjóri stigi til hliðar á meðan rannsóknin fer fram. En hún virðist ekki hafa kjark til þess. Haraldur ætlar að sitja sem fastast á meðan allt logar innan lögreglunnar í landinu. Það er óþolandi staða. Páll Magnússon, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir í útvarpinu í dag „að ríkislögreglustjóri geti ekki setið áfram“. Viðbúið er að nefnd þingsins taki málið strax til meðferðar til að auka þrýsting á dómsmálaráðherra að víkja Haraldi til hliðar til að ró færist yfir sörf lögreglunnar í landinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ung og óreynd og algerlega ný í embætti dómsmálaráðherra. Hún er að missa af gullnu tækifæri til að stimpla sig inn sem alvöru ráðherra. Með því að þora ekki að taka á málefnum ríkislögreglustjóra fellur hún á fyrsta prófi sínu sem ráðherra. Þá munu þeir rísa upp sem töldu hana of unga og óreynda og segja: „Við sögðum þetta, hún hefur ekki burði til að gegna ráðherraembætti. Hana skortir kjark og reynslu, betra hefði verið að skipa lífsreyndari stjórnmálamann til þess að gegna erfiðu embætti dómsmálaráðherra.“

Málið getur einnig orðið erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur borið ábyrgð á Haraldi Johannessen allan hans umdeilda feril. Ef flokkurinn tekur ekki af skarið í þessu viðkvæma máli, þá mun hann lenda í að verja margháttuð mistök embættismannsins. Það gæti orðið ærið verkefni og trúlega ekki það sem flokkinn vantar helst nú um stundir þegar fylgi hans er komið niður í 18.3% samkvæmt nýjustu skoðanakönnun og hefur aldrei mælst minna.

 

Nýjast