Upphlaup Davíðs og Styrmis vegna orkupakkans er runnið út í sandinn

Upphlaup Davíðs og Styrmis vegna orkupakkans er runnið út í sandinn

Úrillir og gamlir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa í allan vetur reynt að búa til ágreiningsefni innan flokksins um svonefndan þriðja orkupakka ESB. Davíð Oddsson, Styrmir Gunnarsson, Tómas Ingi Olrich og nokkrir fleiri úr náhirð Davíðs hafa gert hið ýtrasta til að búa til ágreining um þetta mál og jafnvel gengið svo langt að tala um að flokkur þeirra kunni að klofna ef ekki verið tekið mark á svartnættisrausi þeirra.

 

Málatilbúnaður þeirra er í besta falli hlægilegur en þó miklu frekar sorglegur. Hér er ekki á ferðinni mál sem kjósendur láta sig varða og engin hætta getur verið á ferðum fyrir landsmenn eins og hinir úrillu hafa haldið fram. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa haldið á þessu máli af mikilli yfirvegun. Helstu ráðamenn flokksins hafa sagt sem minnst. Formaðurinn hefur verið þögull og utanríkisráðherra hefur farið sér hægt þar til hann greiddi úrtölumönnum náðarhöggið með snjöllu útspili. Guðlaugur Þór Þórðarson svaraði öllu bulli um þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðarvá með þeirri einföldu tillögu að sæstrengur til og frá Íslandi verði ekki heimilaður nema með samþykki Alþingis. Þar með voru öll vopn slegin úr höndum nöldurseggjanna. Um þetta getur tekist alger sátt í þinginu – enda vita flestir að það er enginn að fara að fjárfesta í sæstreng sem kostar eitt þúsund milljarða. Slíkt er ekki og verður ekki á dagskrá. Og þar með mun íslensk orkuframleiðsla ekki tengjast Evrópu með beinum hætti.

 

Davíð og Styrmir hafa gengið svo langt að væna stjórnmálamenn nánast um landráð þegar þeir hafa lýst stuðningi við að samþykkja umræddan orkupakka. Mörgum þótti Davíð Oddsson falla fram af brúninni þegar hann lét eftirfarandi frá sér fara í vikulegri smásögu sinni, Reykjavíkurbréfi, í Morgunblaðinu þann 24. mars sl.:

 

„Í vikunni héldu ráðherrarnir „leynifund“ með þingmönnum sínum um að koma orkupakka þrjú með leiftursókn í gegnum þingið. En það er ekki öruggt að þeir nái samt að koma aftan að þjóðinni í málinu, enda geta þeir illa rökstutt hvað fyrir þeim vakir og hvaða nauðsyn knýr þá áfram. Það var einmitt vandinn með Icesave. Forysta Sjálfstæðisflokksins gat ekki og getur ekki enn útskýrt hvers vegna hún brást óvænt í því máli og almenninir flokksmenn eru því enn á verði gagnvart henni og fylgið sem hvarf hefur ekki komið til baka. Það myndi ekki skaða hana núna ef hún leitaðist við að draga upp þá mynd af sjálfri sér að hún sé þrátt fyrir þetta örlagaþrungna axarskaft fremur í hópi vina þjóðarinnar en óvina hennar, sem reyndist henni svo dýrkeyptur flokkadráttur síðast.“

 

Þarna talar reiður og bitur gamall maður sem er ekki lengur í neinu sambandi við raunveruleikann. Hann talar um „fylgið sem hvarf“. Þá er rétt að minna hann á að flokkurinn hefur þrátt fyrir allt mælst með um 25% fylgi bæði í kosningum og skoðanakönnunum. Það er um tvöfalt meira fylgi en Davíð Oddsson hlaut sjálfur í forsetakosningunum vorið 2016 þegar hann náði fjórða sæti með rúm 13% kjósenda á bak við sig. Þá hafði mikið fylgi horfið frá því Davíð var og hét í íslensku stjórnmálalífi. Hann ætti að líta sér nær! Eftirspurn eftir öfgaskoðunum Davíðs og hirðar hans er orðin mjög takmörkuð og í engu samræmi við framboðið.

 

Þessir fyrrverandi áhrifamenn mættu fara að horfast í augu við þann raunveruleika að þeir eru fyrrverandi. Annað ekki. Þeir hafa misst völdin og áhrifin sem þeir höfðu og þeir verða að sætta sig við það. Valdatími þeirra er horfinn heimur – veröld sem var.

 

Nýjast