Svartur dagur í sögu Bretlands þegar trúður tekur við

Svartur dagur í sögu Bretlands þegar trúður tekur við

Englendingar eiga ekkert betra skilið en að fá Boris Johnson sem forsætisráðherra. Þeir kölluðu sjálfir yfir sig BREXIT-klúðrið og þeir verða að taka afleiðingum þess. Landsmenn kusu þessi skelfilegu mistök yfir sig í lýðræðislegum kosningum og því hafa þeir ekki við neina aðra að sakast. Það þýðir ekkert að benda á aðrar þjóðir eða Evrópusambandið. Ekki er við því að búast að neinir vilji rétta þeim hjálparhönd. Bretar þurfa að læra sína lexíu núna. Mistökin verða dýru verði keypt.

 

Mun Boris takast að sameina Íhaldsflokkinn að baki sér? Nei, ekkert bendir til þess. Flokkurinn er margklofinn og fjöldi áhrifamanna í flokknum treysta Boris Johnson ekki og munu bregða fæti fyrir hann.

Mun Boris takast að sameina þjóðina að baki sér? Nei, enn síður en flokkinn.

 

Sterlingspundið hefur verið í frjálsu falli og verður það áfram. Atvinnuleysi eykst, kaupmáttur fólks fer minnkandi og hagvöxtur dregst saman. Stórfyrirtæki og bankar eru að flýja Bretland og koma sér fyrir með evrópskar höfuðstöðvar sína á meginlandi Evrópu. Alþjóðlegu bankarnir flytja sig til Frankfurt, Parísar eða Sviss og London er ekki lengur sú miðstöð alþjóðlegra fjármála sem var.

 

Afleiðingarnar af BREXIT-ruglinu í Bretum verða gríðarlegar. Það kemur vel á vondan að Boris Johnson fái það hlutverk að stýra landinu niður í þann öldudal sem blasir við. Hann átti mestan þátt í þessu slysi með öfgakenndum og óheiðarlegum málflutningi fyrir kosningarnar sumarið 2016.

 

Margir líta á Boris sem trúð. Áður var hann talinn frumlegur trúður en nú er gamanið farið að kárna. Hann er ekki þekktur fyrir stöðugleika. Eitt í dag og annað á morgun. Erfitt er að treysta því sem hann segir og það kann ekki góðri lukku að stýra ef forsætisráðherra Bretlands er alls ekki trúverðugur stjórnmálamaður. Maður sem getur ekki haldið heimilisfrið án afskipta lögreglu ætti ekki að sækjast eftir opinberum ábyrgðarstöðum. En Boris finnst það ekki skipta máli. Orðspor Breta bíður hnekki og hverjir munu nýta sér þá veikleika sem eru að birtast. Þar koma ýmsir til greina.

 

Snemma á síðustu öld var talað um breska heimsveldið. Síðan breska samveldið. Þá Stóra-Bretland. Nú stefnir hraðbyri í Litla-Bretland.

Nýjast