Siðanefnd Alþingis - og hvað svo?

Siðanefnd Alþingis - og hvað svo?

Ekki er ætlunin að fara hér og nú að rifja upp öll þessi tilvik undanfarnar vikur og mánuði þegar alþingismenn hafa orðið sér til minnkunar með ýmsum hætti og verið orðað í því sambandi að kæra þá til hinnar svonefndu siðanefndar Alþingis, nú eða vísa máli þeirra til nefndarinnar. Gott og vel, þetta eru allmargir þingmenn, að minnsta kosti vel á annan tug talsins og brot þeirra, eða skandalar, nokkuð mismunandi.

Eitt hefur samt alveg vantað í alla fjölmiðlaumfjöllun um þessa siðferðisbresti þingmannanna: Hvað svo?
Skoðum það aðeins. Fyrst: Hvað getur siðanefndin gert í málefnum þingmannanna? Hefur hún eitthvað vald? Getur siðanefnd Alþingis vísað þingmanni af þingi? Svipt hann þinghelgi og jafnvel þingmennsku?

Trúlega ekkert af þessu. Líkast til getur siðanefndin ekkert gert annað en að lýsa því yfir (ef hún er á þeirri skoðun) að viðkomandi þingmaður hafi gerst brotlegur við siðareglur Alþingis (sem Alþingi sjálft náttúrlega setur). Kannski er hægt að hafa úrskurðinn misjafnlega kröftugan: Þingmaðurinn hefur: a) verið nærri því að brjóta reglurnar, b) brotið reglurnar, c) brotið reglurnar alvarlega, d) gerst alveg obbosla brotlegur o.s.frv. Svo getur siðanefndin vísað málinu til forsætisnefndar sem Þorsteinn Pálsson kallar í pistli hér á Hringbraut "yfirsiðanefnd."

Og hvað gerir þá yfirsiðanefndin? Rekur þingmanninn af þinginu? Nei! Það er ekki hægt! Beitir hún þingmanninn tímabundinni einangrunarvist, t.d. í matsal Alþingis? (það yrði náttúrlega ekki eiginleg einangrunarvist heldur bara einangrun frá því að geta baðað sig í sviðsljósi fréttamiðlanna með ræðuhöldum í pontu Alþingis).
Stóra spurningin er þessi: Eru til einhver viðurlög sem skipta einhverju máli vegna siðferðisbrests þingmanna? Einhver önnur en að refsa þeim með því að kjósa þá ekki aftur næst?
Hverju á þá allt þetta hjal um "siðanefnd" Alþingis að skila?

Nýjast