Kolfallin ríkisstjórn getur ekki haldið völdum áfram

Kolfallin ríkisstjórn getur ekki haldið völdum áfram

Hver skoðanakönnunin á fætur annarri mælir fylgi stjórnmálaflokkanna þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir tapað og ríkisstjórnin er kolfallin ef mið er tekið af þessum könnunum. Þessi staða hefur verið svona allt þetta ár og jafnvel lengur. Litlu breytir við hvaða kannanir er miðað. Þær eru í meginatriðum samstiga og mæla allar tap stjórnarflokkanna sem þýðir fall ríkisstjórnarinnar.

 

Nú um mánaðarmótin birti Gallup skoðanakönnun sína sem unnin var í ágústmánuði. Um er að ræða stóra könnun. Hún sýnir að stjórnarflokkarnir hafa tapað samtals sex þingsætum frá kosningunum haustið 2017. Það þýðir að stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur fækkað úr 35 í 29 en lágmarksfjöld stuðningsmanna í þinginu til að hafa meirihluta er 32 eins og kunnugt er. Ríkisstjórnin er því fallin enn á ný sé mark tekið á niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar.

 

Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum var 25.3% en mælist nú 21.7%. Þannig hafa 15% kjósenda flokksins yfirgefið hann á kjörtímabilinu. Stuðningur við Vinstri græna var 16.9% í kosningunum en mælist nú 12.8%. Þannig hafa 25% kjósenda flokksins yfirgefið hann á kjörtímabilinu eða fjórði hver kjósandi. Framsóknarflokkurinn hefur einnig misst fjórða hvern kjósanda á kjörtímbilinu. Flokkurinn naut fylgis 10.7% kjósenda í kosningunum en mælist nú með 8.3% samkvæmt könnun Gallups.

 

Ríkisstjórnin er rúin trausti og verður að fara að horfast í augu við það. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræður ekki við verkefni sitt. Hún er á stöðugum flótta undan vandamálunum og reynir að beina athygli frá þeim með því að skreyta sig með myndum af heimsfrægum valdamönnum sem hún heldur „fundi“ með. „Fundi“ sem gjarnan taka fáeinar mínútur og eru ekkert nema sýndarmennska. Kjósendur sjá í gegnum þetta en átta sig á því að Vinstri græn eru í algerri vörn vegna fyrirhugaðra hernaðarframkvæmda upp á milljarða á Keflavíkurflugvelli og Katrín var pínd til að hitta hinn umdeilda veraforseta Bendaríkjanna en hún ætlaði að reyna að víkja sér undan því. Bjarni Benediktsson skipaði henni að hitta Pence og hún varð að hlýða því. VG-félögum er ekki skemmt. Þá var orkupakkinn VG erfiður og ljóst er að EES verður ekki fargað. Katrín hefur orðið að svíkja margvísleg loforð um fjárframlög frá ríkinu til velferðarmála og hún hefur svikið skýra stefnu flokksins í hvalveiðimálum, svo eitthvað sé nefnt. Mikil ólga er í baklandi hennar – því litla baklandi sem þó er eftir.

 

Öllum sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi má vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn logar stafnana á milli. Orkupakkinn er flokknum mjög þungur í skauti. Þingmenn sem maður talar við reyna að afgreiða klofninginn innan flokksins vegna þessa máls með því að andstæðingar orkupakkans innan flokksins séu bara gamlir, svekktir fyrrum valdamenn sem þoli ekki að ráða ekki ferðinni lengur. Eitthvað er til í því. En engu að síður geta þeir ekki afgreitt fyrrum formann flokksins og hirðina í kringum hann með svo einföldum hætti. Andstaðan gegn orkupakkanum nær langt út fyrir þann þrönga hóp sem stundum gengur undir uppnefninu „Náhirð Davíðs“.  Forysta flokksins er afar veik og Bjarni Benediktsson bíður eftir heppilegri tímasetningu til að losna frá formennsku í flokknum. Hann er orðinn örþreyttur á vonbrigðum og argaþrasi enda getur það ekki verið uppörvandi að stýra flokki stöðugt niður á við en Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í fylgi kringum 20% en hélt lengi vel 35-40% fylgi í þingkosningum.

 

Ekki er ástandið skárra í Framsókn. Flokkurinn naut fylgis 10.7% kjósenda í kosningunum fyrir tveimur árum. Það var lakasta fylgi flokksins frá upphafi. Nú mælist fylgið einungis 8.3% sem er svipað og í flestum skoðanakönnunum á þessu ári. Með þessu næði Framsókn einungis 5 til 6 þingmönnum og tapaði 2 til 3 þingsætum. Ljóst er að með þeirri niðurstöðu fengi flokkurinn engan á höfuðborgarsvæðinu sem þýddi að varaformaður flokksins og helsta vonarstjarna, Lilja Alfreðsdóttir,næði ekki kjöri.

 

Samfylkingin er í mikilli sókn og fengi samkvæmt könnun Gallup 15.5% atkvæða og bætti við sig 4 þingmönnum. Viðreisn bætti einnig við sig 4 þingmönnum og fengi 11.4% atkvæða í stað 6.7% í síðustu kosningum. Píratar standa í stað frá kosningunum, Miðflokkurinn bætir við sig vegna þeirrar miklu athygli sem flokkurinn hefur fengið tímabundið út á orkupakkamálið. Flokkur fólksins félli út af þingi eins flestar kannanir hafa sýnt í marga mánuði.

 

Þegar á allt er litið blasir við að senn hljóta dagar þessarar ríkisstjórnar að vera taldir. Það er ekki boðlegt að hún sitji áfram við völd rúin trausti.

 

Hin sjálfsagða krafa er kosningar á komandi vetri.

 

Nýjast