Katrín vill forða sér áður en spilaborgin hrynur: Kannar nú flóttaleiðir sínar

Katrín vill forða sér áður en spilaborgin hrynur: Kannar nú flóttaleiðir sínar

Að hálfnuðu kjörtímabili bera ýmsir ráðherrar sig mannalega og reyna að halda því að almenningi að ríkisstjórninni hafi gengið vel á fyrri hluta kjörtímabilsins og ekkert lát verði á því.

Í þessu tali er holur hljómur. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita að þetta er rangt. Ríkisstjórnin hefur komið fáu í verk. Það stóð heldur ekkert endilega til. Stjórnin var mynduð um kyrrstöðu en fyrst og fremst ráðherrastóla.

Vinstri græn höfðu einungis tvö markmið og hafa náð þeim báðum. Fyrst og fremst að gera formann sinn að forsætisráðherra. Sósíalistar hafa aldrei áður átt forsætisráðherra á Íslandi; hvorki Vinstri græn, Alþýðubandalagið, gamli Sósíalistaflokkurinn né  Kommúnistaflokkur Íslands. Í raun og veru alltaf sami flokkurinn - en með nýjum og nýjum nöfnum. Katrín Jakobsdóttir náði þessu marki í boði Sjálfstæðisflokksins af öllum flokkum. Hitt markmiðið var að koma Steingrími J í stól forseta Alþingis.

Það tókst einnig í boði þess flokks sem hann niðurlægði með því að draga fyrrverandi formann flokksins einan fyrir Landsdóm. Allir vita að Steingrímur stjórnaði því níðingsverki gagnvart Geir Haarde.

Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn látið yfir sig ganga. Ekki skrítið að mörgum tryggum sjálfstæðismönnum svelgist á.

En víkjum aftur að Katrínu. Hún hét kjósendum sínum því að vinna alls ekki með Sjálfstæðisflokknum en sveik það. Hún hefur einnig svikið kjósendur sína varðandi stjórnarskrána, í málefnum innflytjenda, í skattamálum, gagnvart NATO þar sem hún flaðrar upp um stríðsherrana, vegna öryrkja og aldraðra og í dýraverndarmálum eins og áframhaldandi stórhvaladráp ber vitni um.

Katrín getur ekki lengur bjargað sér með tali um loftslagsmál og umhverfisvernd vegna þess að allir flokkar eru nú sammála um þau mál nema Miðflokkurinn.
Vinstri græn hafa ekkert annað.

Fylgið hefur hrunið af Vinstri grænum á kjörtímabilinu. Flokkurinn hefur tapað þriðja hverjum kjósenda sinna frá kosningum fyrir tveimur árum og nú gerir samdráttur vart við sig í þjóðfélaginu. Þá mun fylgi stjórnarflokkanna enn dala.

Katrín Jakobsdóttir gerir sér grein fyrir þessu öllu. Hún ætlar ekki að verða undir og hrekjast út úr stjórnmálum.

Að undanförnu hefur katrín kannað flóttaleiðir sínar. Hún lét fagfólk skoða hvort hún gæti náð árangri með forsetaframboði á næsta ári. Og svarið var einfalt: Ekki möguleiki. Guðni mun vinna hvern sem er með fáheyrðum yfirburðum.

Nú er Katrín Jakobsdóttir að reyna að afla stuðnings til að fá stöðu hjá UNESCO sem er ein af lykilstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þar gæti hún hvílt lúin bein í öruggu umhverfi. 

Rólegri innivinnu er varla hægt að finna fyrir örmagna stjórnmálamenn.

Nýjast