Hvers vegna pukrast ÍSAVÍA með ráðningu forstjóra?

Hvers vegna pukrast ÍSAVÍA með ráðningu forstjóra?

Það vekur ónotatilfinningu að ÍSAVÍA skuli ekki fást til að gefa upp nöfn þeirra sem sóttu um stöðu forstjóra hjá félaginu. Opinberar stofnanir og fyrirtæki gefa jafnan upp hverjir umsækjendur eru þegar staða forstjóra er auglýst. ÍSAVÍA er í eigu ríkisins og ákaflega mikilvægt og verðmætt fyrirtæki. Það varðar almannahag miklu að vel takist til um ráðningu æðstu manna hjá slíku fyrirtæki.

En hvers vegna pukur og leynd? Engin eðlileg ástæða er fyrir því og þess vegna vaknar ónotatilfinning. Fjármálaráðherra fer með þennan eignarhlut fyrir hönd ríkissjóðs. Því má ætla að stjórn fyrirtækisins ráði ekki í stöðu forstjóra nema í góðri sátt við ráðherra sem í þessu tilviki er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Og þar vaknar ónotatilfinningin.

Bjarni Benediktsson er þekktur fyrir að koma völdum flokksgæðingum í margar af þeim áhrifastöðum sem hann hefur með að gera. Frá því eru sem betur fer undantekningar. En vitað er að nokkrir sem fallið hafa út úr stjórnmálum hafa sótt fast að fá feitar stöður á vegum flokksins. Meðal þeirra eru tveir fyrrverandi ráðherrar flokksins sem hrökkluðust út úr stjórnmálum og hafa ekki fengið neitt mikilvægt að gera frá því þau hurfu af Alþingi og úr ríkisstjórninni. Hér er auðvitað átt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Illuga Gunnarsson. Þau hafa bæði sótt hart að forystu Sjálfstæðisflokksins að fá vel launuð störf en án árangurs.

Ef Bjarni Benediktsson gerist svo djarfur að láta skipa annað hvort þeirra í starf forstjóra ÍSAVÍA, þá mun almenningsálitið dæma flokkinn hart. Hann mundi þá enn tapa fylgi. Ætli hann telji sig hafa efni á því?

Nýjast