Hafið er pólitískt stríð um RÚV. En Lilja ræður

Hafið er pólitískt stríð um RÚV. En Lilja ræður

Dagfari skýrði frá því í gær að strax væri farið að tala um Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi Alþingismann, sem næsta útvarpsstjóra enda er talið fullvíst að Magnús Geir Þórðarson verði ráðinn Þjóðleikhússtjóri og hverfi þar með frá RÚV.

 

Menntamálaráðherra ræður því hver verður skipaður útvarpsstjóri. Nema því aðeins að stjórnarflokkarnir semji um einhvers konar „hrossakaup“ til að ná samstöðu um stórar stöður í kerfinu sem erfitt er að ná samstöðu um. Þetta er sagt vegna þess að innan ríkisstjórnarinnar logar nú allt vegna skipunar í embætti bankastjóra Seðlabanka íslands. Skipunarvaldið er í höndum forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna. Hún er staðráðin í að skipa vin sinn og vinstri manninn dr. Gylfa Magnússon. Allur þingflokkur hennar styður þessa ákvörðun heils hugar enda átti Gylfi sæti í hinni alræmdu vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms um tíma. Þar sat hann með Steingrími, Svandísi og Katrínu (sem var þá menntamálaráðherra þó fáir muni eftir því enda kom hún nær engu í verk). Gylfi var mjög illa þokkaður af sjálfstæðismönnum í ráðherratíð sinni en hann kom fram við marga stuðningsmenn flokksins af mikilli hörku. Hann talaði einnig illa um verk fyrri ríkisstjórna sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði stýrt. Gylfi kallaði Ísland „Kúbu norðursins“. Það tóku sjálfstæðismenn til sín og hafa margir hverjir ekki fyrirgefið Gylfa.

 

Flest bendir til þess að Katrín muni skipa dr. Gylfa Magnússon í stöðu bankastjóra seðlabankans á næstunni og það muni valda ólgu og óróa innan ríkisstjórnarinnar. Einhverjum hefur komið til hugar að Sjálfstæðisflokkurinn fái eitthvað fyrir sinn snúð sem eins konar bætur fyrir þetta. Því er nefndur sá möguleiki að þeir fái að ráðstafa embætti útvarpsstjóra. Það er ólíklegt. En kæmi til þess munu margir knýja dyra hjá Bjarna Benediktssyni og grátbiðja um þetta stóra embætti. Sumir þeirra eru sífellt að biðja flokkinn um eitthvað fyrir sig en án árangurs. Dæmi um það eru Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi þingmaður og Illugi Gunnarsson fyrrverandi ráðherra. Flokkurinn hefur lítið viljað gera fyrir þá. Illugi var gagnrýndur harkalega vegna óráðsíu í eigin fjármálum. Það yrði allt rifjað upp ef einhverjum dytti í hug að reyna að dubba hann upp í stórt embætti. Þá yrði spurt hvort maður sem getur ekki ráðið við eigin fjármál geti stýrt milljarða stofnun. Það þætti ekki boðlegt. Þá eru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins taldir bíða eftir tækifærum til að koma sér í var og gætu þegið stóra og valdamikla stöðu á við embætti útvarpsstjóra. Þetta gæti átt við Birgi Ármannsson, sem er orðinn mjög þreyttur í þinginu, og eins harðlínuþingmennina Óla Björn og Brynjar Níelsson. Brynjar er þó líklegur til að þora að segja skoðanir sínar og beita sér fyrir marktækum breytingum á þessari stofnun sem flokkur hans hefur gagnrýnt svo mikið.

 

Freistandi gæti verið fyrir Bjarna Benediktsson að koma þarna að liðtækum „snötum“ sínum ef til þessa kæmi. Það gæti átt við um aðstoðarmann hans, Svanhildi Hólm Valsdóttur, sem hefur þó reynslu sem sjónvarpsþula eða jafnvel Friðjón Friðjónsson, fyrrum aðstoðarmann Bjarna, sem gjarnan hefur verið settur í ýmis „skítverk“ fyrir flokkinn. Hann hefur samt enga reynslu eða hæfileika sem gætu nýst á þessum vettvangi. Þá væri Svanhildur mun betri kostur – með reynslu sem þula! Eins gæti Bjarni valið að skipa Eyþór Arnalds enda hefur honum mistekist ætlunarverk sitt í Borgarstjórn Reykjavíkur. Flokkurinn gæti þannig bjargað Eyþóri frá þeirri niðurlægingu og fengið þar með mun frambærilegri leiðtoga fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn, Hildi Björnsdóttur, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í síðustu kosningum.

 

Þrátt fyrir þessar vangaveltur er langlíklegast að Lilja velji næsta útvarpsstjóra. Ólíklegt er að hún finni nokkurn boðlegan innan Framsóknarflokksins. Þá mun hún velja einhvern af miðju eða vinstri væng stjórnmálanna en þar er að finna margt hæft og menningarlega sinnað fólk. Nafn Ólínu Þorvarðardóttur hljómar mjög líklega enda er um að ræða konu með mikla stjórnunarreynslu og menntun sem hlyti að nýtast afar vel í starfi útvarpsstjóra. Er ekki einmitt kominn tími á konu í þessu embætti?

 

 

 

Nýjast