Fyrirtæki Guðbjargar sýnir hroka og fákænsku

Fyrirtæki Guðbjargar sýnir hroka og fákænsku

ÍSAM- Íslensk ameríska hótar um 4% hækkun á verðlistum fyrirtækja sinna verði kjarasamningar samþykktir. Hér er á ferðinni fáheyrt útspil fyrirtækis þegar kosningar um nýgerðan kjarasamning standa enn yfir. 

Guðbjörg Matthíasdóttir kvótadrottning í Vestmannaeyjum er eigandi ÍSAM sem er eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins á sviði neysluvarnings. Meðal dótturfélaga þess eru Myllan, ORA og Frón. Ekki þarf að gera ráð fyrir öðru en Guðbjörg sjálf hafi fyrirskipað þessar taktlausu hækkanir. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins taka varla upp á þessu sjálfir.

Fjölskylda Guðbjargar á Ísfélag Vestmannaeyja sem er eitt kvótahæsta fyrirtæki landsins og rekur mikla útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Nýting sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar hefur skilað Ísfélaginu ofurhagnaði sem hefur verið nýttur til fjárfestinga í verslun, iðnaði og fjölmiðlum.

Meðal fyrirtækja í eigu Guðbjargar og tengdra aðila eru Ísfélag Vestmannaeyja, ÍSAM, Myllan-brauð, ORA, Frón, Fastus, Morgunblaðið 40%, Lýsi, Prentsmiðjan Oddi, Plastprent, Kassagerðin og stórhýsið Korputorg. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að Guðbjörg og tengdir aðilar hafa verið að kaupa mikið hlutafé í TM hf.
Það gæti numið 10% af félaginu nú þegar.

Það er því miklu alvarlegra en sýnist í fyrstu ef Guðbjörg Matthíasdóttir ætlar gegn nýgerðum kjarasamningum með alla fyrirtækjaflóru sína - sem að stórum hluta hefur verið keypt fyrir hagnað af sameiginlegri fiskveiðiauðlind landsmanna.

Vilhjálmur Birgisson, 1. varaforseti ASÍ, brást við þessum tíðindum með hótun um að launþegahreyfingin beitti sér fyrir að sniðganga viðskipti við fyrirtæki Guðbjargar. Það kemur sterklega til greina.

Samtök atvinnulífsins verða að krefjast þess opinberlega að ÍSAM dragi hótanir sínar strax til baka og að Guðbjörg Matthíasdóttir stigi fram og biðjist afsökunar. Ekki er hægt að una við það að niðurstöðum kjarasamninga verði stefnt í tvísýnu vegna hroka og fákænsku þessara sægreifa.

Annars verður að fara að ráðum Vilhjálms og sniðganga viðskipti við öll þessi fyrirtæki með skipulögðum hætti.

Nýjast