Furðuskrif Tómasar Inga Olrich

Furðuskrif Tómasar Inga Olrich

LANGHUNDUR, eða óþarflega löng ritsmíð, er orðið sem kom upp í hugann við lestur greina Tómasar Inga Olrich fyrrum menntamálaráðherra og sendiherra síðustu vikurnar í Morgunblaðinu. Þar fór hann mörgum orðum í sex yfirgripsmiklum greinum, um svokallaðan „þriðja orkupakka“ og EES. „Úfff“ hugsuðu flestir. Hér verður þó ekki staldrað við sérstaka sýn hans á orkumál enda var þeim þætti greinarskrifa Tómasar Inga svarað strax ágætlega. Meiru skiptir breytt sýn hans á EES sem hann telur nú mikla ógn.

Baráttan gegn EES

Þótt almennir lesendur séu litlu nær hvert Tómas sé að fara með þessum skrifum sínum má þó lesa í þann vilja hans að Íslendingar ættu að segja upp samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið. Innri markaður Evrópu sé til óþurftar og hann ættu Íslendingar að yfirgefa enda séu markaðsöfl Íslendingum ekki farsælt veganesti. Ágætt dæmi um það sé svokallaður orkupakki „sem markar leið þeirra aðila, sem vilja virkja markmið ESB um sameiginlegan orkumarkað og auðveldan aðgang yfir landamæri að orku, sem skilgreind er af sambandinu sem vara og þjónusta. … Á þeim markaði sem öðrum ræður hæstbjóðandi verði.“ Svo skrifar fyrrum ráðherra flokks sem kenndur var hér á árum áður við viðskiptafrelsi. Betra er að byggja múra, tryggja einangrun landsins og stýra þörfum fólks og fyrirtækja af stjórnmálamönnum.

Enn furðulegri eru skrif Tómasar um Evrópusambandið sem hann leggur augljóslega mikla fæð á. Hann segir  að „uppruni regluverks EES [geti] ekki með góðu móti flokkast undir alþjóðasamstarf, eins og þeir sem enn styðja aðild að ESB gjarnan leggja áherslu á. Evrópusambandið er ekki alþjóðastofnun, frekar en Sovétríkin á sínum tíma.“

Örlar á víðsýni

En þótt Tómas Ingi vilji alls ekki viðurkenna það nú hefur hann átt sína spretti í víðsýni. Í umræðum um Evrópskt efnahagssvæði, 5. janúar 1993 sagði hann á Alþingi:

“Við lifum í heimi þar sem milliríkjaviðskipti gegna mjög mikilvægu hlutverki, svo mikilvægu í raun að efnahagslegt sjálfstæði fjölmargra ríkja er undir því komið að þessi viðskipti séu stöðug og um þau ríki eining þjóða í milli. Tryggð með þjóðréttarlegum skuldbindingum og fjölþjóðlegu eftirliti. Ísland er eitt þeirra ríkja sem mest er háð því að tryggja alþjóðlega viðskiptahagsmuni sína. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er áfangi á þeirri braut. Hann treystir stöðu okkar í alþjóðlegum viðskiptum og styrkir efnahagsforsendur okkar sem fullvalda þjóðar.“

Því miður er Tómas Ingi genginn til liðs við Útvarp Sögu, ritstjóra Morgunblaðsins og hina lýðsleikjurnar í Miðflokknum sem sjá bara svartnætti í samvinnu þjóða.

Það er kaldhæðni örlaganna að Tómar Ingi Olrich og ritstjórinn í Hádegismóum, hafi tryggt Íslandi aukaaðild að Evrópusambandinu með samningnum um EES. En meðan þeir Miðflokksmenn gráta, getum við hin fagnað framförum, frelsi og alþjóðlegri samvinnu Evrópuríkja

Nýjast