Formaður VR neitar að horfast í augu við ósigur sinn

Formaður VR neitar að horfast í augu við ósigur sinn

Þó Fjármálaeftirlitið (FME) hafi gefið út tilkynningu um að stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LÍVE) sitji áfram óbreytt þrátt fyrir brölt stjórnar VR, þykist Ragnar Þór Ingólfsson formaður ekki skilja niðurstöðuna. FME fordæmir einnig tilraun til íhlutunar í stjórnun LÍVE sem er með öllu óheimil og stangast á við góða stjórnunarhætti.

VR fer algera sneypuför í þessu máli. Stjórn LÍVE ákvað að lækka vexti um 0.2% í einum lánaflokki og hækka þá um 0.2% í öðrum lánaflokki til samræmingar. Við það gól stjórn VR og talaði um aðför að hagsmunum almennings og að um “geðþóttaákvörðun” væri að ræða að hálfu stjórnarinnar. Hvoru tveggja vitanlega út í hött.

Ragnar Þór hefur verið að bíða eftir tilefni til að gera ágreining við fjóra fulltrúa VR í stjórn LÍVE til að geta hrakið þá á brott fyrir aðra sem hann telur sig geta stjórnað. Ragnar Þór dreymir um að vera skuggastjórnandi í sjóðnum. En tilefnin hafa ekki gefist og ágreiningurinn vegna vaxtabreytinga til lækkunar og hækkunar er lítilsháttar mál. Það hefur orðið til að afhjúpa vanhugsaðan ásetning formanns VR.

FME fordæmir tilburði til inngripa í starfsemi LÍVE og tilraunir til skuggastjórnunar. Hlutverk FME er að tryggja stjórn sjóðsins vinnifrið til að gæta mikilvægra hagsmuna 170.000 sjóðsfélaga sem eiga lífeyrissparnað sinn hjá sjóðnum. FME getur ekki liðið pólitískan skrípaleik.

Ragnar Þór Ingólfsson hlýtur að vita að þetta vanhugsaða upphlaup hans er misheppnað. Leikurinn er tapaður.
FME hefur tekið hann í bóndabeygju og mun ekki sleppa honum.

Nýjast