Fara Sigurður Ingi og Bjarni Ben niður með WOW?

Fara Sigurður Ingi og Bjarni Ben niður með WOW?

Verði WOW gjaldþrota mun það hafa margvíslegar afleiðingar í för með sér. Auðvitað vona allir að ekki komi til gjaldþrots.

En fari svo illa að félagið brotlendi og verði gjaldþrota munu margir þurfa að hafa þungar áhyggjur af stöðu sinni. Meðal þeirra eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.

WOW skuldar ríkisfyrirtækinu Ísavia hátt í þrjá milljarða króna. Það er í hæsta máta óeðlilegt að ríkisfyrirtæki heimili einu fyrirtæki slíka skuldasöfnun og mismuni þannig viðskiptavinum. Stjórn Ísavía hefur tæplega heimilað það án samráðs við fjármálaráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins í félaginu og skipar stjórnina.

Samgöngustofa gefur út flugrekstrarleyfi. Eitt af skilyrðum fyrir veitingu slíkra leyfa er að flugrekendur geti sýnt fram á nægilegan fjárhagsstyrk. Það hefur WOW ekki getað gert í heilt ár. En engu að síður haldið leyfinu. Ríkisstofnunin Samgöngustofa hefur ekki tekið ábyrgð á veitingu leyfis til WOW við þessar aðstæður nema með tilstyrk og heimild samgönguráðherra og á ábyrgð hans.

Fari allt á versta veg og WOW verði gjaldþrota þá verða ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson kallaðir til ábyrgðar.

Vandséð er að þeir stæðu slíkt áfall af sér.

Varla hafa þeir heimilað þessa umdeilanlegu gjörninga nema með fulltyngi forsætisráðherra sem þeir gætu þá tekið með sér í fallinu - og þar með ríkisstjórnina.

Verði WOW gjaldþrota þá gæti ríkisstjórn Íslands fallið í kjölfarið.

Nýjast