Er Davíð Oddsson virkilega að kveðja Sjálfstæðisflokkinn?

Er Davíð Oddsson virkilega að kveðja Sjálfstæðisflokkinn?

Einungis Ólafur Thors hefur verið lengur formaður Sjálfstæðisflokksins en Davíð Oddsson og enginn hefur verið lengur forsætisráðherra á Íslandi en Davíð. Það hljóta því að teljast nokkur tíðindi þegar Davíð gefur til kynna að tími flokksins sé senn liðinn og að það sé ekki endilega „harmsefni“. Í leiðara Morgunblaðsins sl. þriðjudag segir hann orðrétt eftir að hafa fjallað um Sjálfstæðisflokkinn: „Stjórnmálaflokkar eru ekki eilífir og hafi þeir ekki lengur fyrir neinu að berjast styttist í tilverunni og þýðir ekki að fárast yfir því. Enda þarf það í sjálfu sér ekki endilega að vera harmsefni.“

Þessi orð fyrrum formanns lýsa miklu svekkelsi gamla formannsins gagnvart flokknum. Hvers vegna skyldi það vera? Hvers vegna leyfir Davíð sér að leggja þannig til flokksforystunnar? Á því kunna að vera margar skýringar en sú nærtækasta er sú að gamli keppnismaðurinn er tapsár. Hann liggur nú enn á ný í valnum og velur að kenna Sjálfstæðisflokknum um ófarir sínar að þessu sinni.

Davíð Oddsson er vægast sagt flókinn persónuleiki. Hann er mikill keppnismaður sem nýtur sín í meðbyr en getur ekki tekið mótlæti og fer í fýlu þegar hann tapar. Hann naut pólitískrar velgengni á síðustu öll í níu ár sem borgarstjóri og í önnur níu ár sem forsætisráðherra. En svo virðist vera að eitthvað skelfilegt hafi gerst hjá honum við aldamótin. Davíð Oddsson komst aldrei inn í 21. öldina. Eftir aldamótin hallaði hratt undan fæti hjá honum þegar vandræðin tóku við og klúðursmálin komu í röðum. Fyrst var það öryrkjadómurinn sem olli miklu uppnámi, þá reyndist fjölmiðlafrumvarpið ríkisstjórninni og einkum honum sjálfum mjög þungt í skauti. Forseti Íslands greip þá inn í og hafði Davíð undir. Fjölmiðlafrumvarpið markaði upphaf pólitískra endaloka Davíðs sem hrökklaðist út úr ríkisstjórn og lét skipa sig bankastjóra Seðlabanka Íslands sem hlýtur að flokkast með stærri slysum síðari tíma á Íslandi. Sem bankastjóri seðlabankans ýtti hann hruninu af stað árið 2008. Sumir vilja kalla hann „Höfund hrunsins“.

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét reka Davíð úr seðlabankanum vori 2009 vegna embættisafglapa var hann gerður að ritstjóra Morgunblaðsins. Þá hafði blaðið um 35 þúsund áskrifendur en nú hefur helmingur þeirra horfið á braut. Vorið 2016 vildi Davíð fá uppreisn æru og ákvað að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands með stuðningi þröngrar klíku öfgahægrimanna. Þar fóru fremstir Hannes Hólmsteinn, Eyþór Arnalds, Styrmir Gunnarsson, eigendur Morgunblaðsins, Óli Björn Kárason og Kristján Loftsson. Davíð galt afhroð í kosningunum, hlaut 13.7% atkvæða og lenti í fjórða sæti. Guðni Th. Jóhannesson vann með yfirburðum, Halla Tómasdóttir var önnur og náttúruverndarsinninn Andri Snær Magnason þriðji. Sturla Jónsson bílstjóri var næstur á eftir Davíð. Þessi útreið var Davíð mikið áfall en hann lét á engu bera.

Af skrifum Davíðs í Morgunblaðinu hefur mátt ráða að hann er mjög ósáttur við flesta þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þeir eru hættir að hlýða honum. Þeir nenna fæstir að hlusta lengur á Davíð og vilja ekki láta hann segja sér fyrir verkum. Því hefur Davíð hallað sér æ meira að Miðflokknum og svo virðist sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé sá stjórnmálamaður sem Davíð hefur mesta trú á. Alla vega er honum hampað meira í Morgunblaðinu en flestum öðrum þingmönnum. Nú er svo komið að farið er að tala um Miðflokks-arm Sjálfstæðisflokksins sem samanstendur af sérvitringahópi í kringum Davíð.

Davíð Oddsson er upphafsmaðurinn að andófinu vegna þriðja orkupakkans sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. Davíð og bandamenn hans hafa reynt að hleypa afgreiðslu þessa máls upp. Þeir hafa staðið fyrir sjúklegum hræðsluáróðri og dreift röngum og villandi upplýsingum í allar áttir. En allt kemur fyrir ekki. Flesti sjá að hér er um nauðaómerkilegt mál að ræða. Ingvi Hrafn Jónsson orðaði þetta með skýrum hætti í viðtalsþætti á Hringbraut í vikunni: „Þriðji orkupakkinn er stormur í vatnsglasi.“ Nægur stuðningur er við afgreiðslu þessa máls. Það verður afgreitt frá Alþingi eftir nokkra daga, trúlega með meira en 40 atkvæðum gegn 15. Einungis Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hlýða Davíð og hirð hans. Þá verður gamli formaðurinn fyrir enn einu áfallinu. Hvernig mun hann taka því?

Hann mun ekki taka þessum ósigri vel. Sjálfstæðisflokkurinn hlýðir honum ekki lengur. Davíð Oddsson gæti brugðist við þessum ósigri með því að ganga í Miðflokkinn sem hefur ólmast með honum í þessu kjánalega orkupakkamáli. Því skal spáð að Miðflokks-armur Sjálfstæðisflokksins gangi senn í Miðflokkinn ásamt nokkrum vel völdum sósíalistum úr Heimsýn, þeim Hjörleifi Guttormssyni, Jóni Bjarnasyni, Vigdísi Hauksdóttur og Ögmundi Jónassyni.

Þá væri við hæfi að flokkurinn tæki upp nafni MIÐALDAFLOKKURINN.

Nýjast