Enn ein könnunin þar sem ríkisstjórnin er fallin. Eiga stjórnarflokkarnir möguleika?

Enn ein könnunin þar sem ríkisstjórnin er fallin. Eiga stjórnarflokkarnir möguleika?

Það telst ekki lengur til tíðinda að birtar séu skoðanakannanir þar sem fram kemur að núverandi ríkisstjórn sé kolfallin. Nú í vikunni birti Gallup skoðanakönnun sem sýnir það enn á ný. Allar skoðanakannanir það sem af er þessu ári hafa sýnt að ríkisstjórnin sé fallin og að hún hafi misst 5 til 7 af þeim þingmönnum sem hafa stutt hana. Í þessari nýjustu könnun hefur Framsókn tapað tveimur þingmönnum og Vinstri græn þremur. Stjálfstæðisflokkur stendur í stað og mælist með sextán þingmenn eins og í kosningunum haustið 2017. Það er minnsti þingstyrkur flokksins frá upphafi.

 

Þó meginniðurstöður allra skoðanakannana séu áþekkar þá er nokkur munur á þeim eftir fyrirtækjum. Gallup mælir yfirleitt fylgi Sjálfstæðisflokks betur en hin fyrirtækin og sýndi nú 23.5% fylgi á meðan MMR mældi það einungis 18.1% í síðustu viku. Flokkurinn sveiflast kringum 20% og virðist vera að festast þar.

 

Evrópusinnuðu flokkarnir, Samfylking og Viðreisn, vaxa mikið frá síðustu kosningum. Hvor flokkur bætir við sig heilum fjórum þingsætum og hefðu samtals 19 þingmenn ef kosið yrði nú og könnun Gallups gengi eftir. Vinstri græn hafa tapað mestu. Farið úr 16.9% í kosningunum niður í 12% nú. Flokkurinn hefur misst nærri þriðja hvern kjósanda sinn frá kosningunum fyrir tveimur árum. Það er ekki glæsilegur árangur hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem notið hefur ómælts sviðsljóss vegna embættis síns og verið sýnd með mörgu stórmenninu. Það virðist ekki auka álit kjósenda á henni þó hún stilli sér upp til myndatöku með varaforseta Bandaríkjanna, kanslara Þýskalands eða forsætisráðherrum Norðurlandanna. Skýringin er sennilega sú að flokkur Katrínar hefur selt frá sér flest grundvallarmál vinstri manna fyrir ráðherrastóla og fína ráðherrabíla!

 

Þessi ríkisstjórn ólíkra flokka var mynduð um kyrrstöðu og völd. Ráðherrunum er mikið í mun að samstarfið haldi út kjörtímabilið. Því bendir ekkert til þess að stjórnin falli á kjörtímabilinu. Þá er því ósvarað hvort kosningar muni fara fram í apríl 2021 eða um haustið sama ár. Því er spáð hér að Alþingiskosningar fari fram um miðjan september 2021. Hvað gerist fram að þeim tíma veit auðvitað enginn. En ætla má að framhald verði á kyrrstöðu þar sem stjórnvöld reyni að slá sem flestum ágreiningsmálum á frest með því að setja á fót enn fleiri nefndir. Þar væri á ferðinni gamla trixið að svæfa ágreiningsmálin í nefnd.

 

Hins vegar gæti dregið til tíðinda hvað varðar forystu allra flokkanna. Hávær orðrómur er um að Sigurður Ingi Jóhannsson víki fljótlega sem formaður Framsóknar. Þá tæki Lilja Alfreðsdóttir við formennsklu og Ásmundur Einar Daðason yrði varaformaður. Flestir eiga von á að Bjarni Benediktsson láti af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi sem trúlega verður ekki fyrr en í byrjun október að ári. Hann mun reyna að ná samstöðu um núverandi varaformann flokksins, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, en þrátt fyrir það bendir flest til þess að Guðlaugur Þór Þórðarson taki við formennsku í flokknum enda er hann hokinn af pólitískri reynslu.

 

Minna hefur verið rætt um forystumál Vinstri grænna. Steingrímur J. Sigfússon hættir þingmennsku eftir 38 ára þrásetu ef kosið verður 2021. Flestum er ljóst að Steingrímur hefur ráðið flestu í flokknum síðustu 20 árin og verður skarð hans trúlega vandfyllt. Katrín Jakobsdóttir hefur átt sæti á Alþingi frá vorinu 2007. Í aðdraganda kosninganna 2013 var fylgi VG samkvæmt skoðanakönnunum komið niður að þeim mörkum að flokkurinn var við það að falla út af þingi. Þá vék Steingrímur J. Sigfússon skyndilega úr sæti formanns og Katrín tók við skömmu fyrir kosningar. Ritstjóri Morgunblaðsins var þá svo „smekklegur“ að tala um að VG hefði fengið sér „gluggaskraut“. Við þessa breytingu jókst fylgi flokksins nokkuð þannig að hann féll ekki út af þingi. Katrínu hefur ekki gengið vel að stýra núverandi ríkisstjórn og misst þriðjung fylgis VG á kjörtímabilinu. Hermt er að hún sé orðin þreytt á pólitísku vafstri og íhugi að hætta að loknu kjörtímabili. Það gæti verið stíll yfir því að stíga niður úr stjórnmálum sem forsætisráðherra.

 

Komi til þess að bæði Steingrímur og Katrín hverfi af vettvangi stjórnmálanna um leið þá er vandséð hver ætti að taka við formennsku í VG. Alla vega er enginn úr núverandi þingliði vel til þess fallinn. Það kæmi samt væntanlega einhver út djúpinu eins og alltaf.

Nýjast