Dýralæknana verður að stöðva með góðu eða illu

Dýralæknana verður að stöðva með góðu eða illu

Galnasta hugmynd stjórnmálamanna á Íslandi í langan tíma eru áform samgönguráðherra um að keyra í gegn 64 milljarða fjárveitingu til að gera þrenn göng á Austfjörðum. Reynslan sýnir að öll göng á vegum ríkisins hafa farið gríðarlega mikið fram úr áætlun þannig að um enn stærri fjárhæð er að ræða. Skemmst er að minnast Vaðlaheiðarganga sem áætlanir gerðu ráð fyrir að ættu að kosta um 10 milljarða en nýjustu tölur sýna að kostnaðurinn er kominn yfir 20 milljarða. Óhætt er að gera ráð fyrir að þrenn göng á Austfjörðum fari yfir 100 milljarða króna. Það er fjárfesting sem stenst engin efnisleg rök og er trúlega það allra vitlausasta sem stjórnmálamenn hafa boðað lengi. Af mörgu er þó að taka.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, formaður Framsóknarflokksins og dýralæknir fer fyrir þessum óábyrgu áformum. Ætlunin er að verja 100 milljörðum af skattpeningum ríkisins í samgöngubætur á jafn afskekktum stað og í Mjóafirði þar sem einungis nokkrir tugir manna búa. Um 80% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og þar fást ekki nokkrir milljarðar króna úr ríkissjóði til að ljúka við sjálfsagðar samgöngubætur eins og fjölmörg dæmi eru um. Þannig hefur enn ekki verið lokið við að gera boðlegan veg alla leið til Keflavíkurflugvallar þar sem öll umferð vegna millilandaflugs landsmanna fer í gagn til viðbótar við mikla umferð okkar Íslendinga um svæðið. Ekki hafa fengist fjármunir til að gera nokkur mislæg gatnamót í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Áformum hefur verið frestað aftur og aftur. Afleiðingarnar eru slys og dauðsföll sem aldrei verða bætt. Ekki hafa fengist fjármunir til að setja hluta Miklubrautar í stokk en slík ráðstöfun myndi stórbæta flæði umferðar í höfuðborginni. Miklabraut er þjóðvegur í þéttbýli og því á ábyrgð ríkissjóðs. Ekki er enn búið að ljúka við nauðsynlegar vegabætur frá Reykjavík og austur fyrir fjall til Selfoss og helst Hvolsvallar. Um þetta hefur verið rætt í meira en 20 ár en seint gengið.

Á sama tíma og það vantar gríðarlegar fjárhæðir til að bæta umferðarmannvirki á þéttbýlasta svæði landsins og einnig til að eyða einbreiðum brúm á þjóðveginum hringinn í kringum landið, leyfir samgönguráðherra sér að kynna áform um 64 milljarða jarðgöng – sem munu væntanlega kosta meira en 100 milljarða ef af verður. Þetta sýnir dómgreindarleysi hans. Eða er það ef til vill frekar pólitísk örvænting sem rekur hann til að leggja fram slíkar hugmyndir?

Fyrir liggur að fylgi Framsóknarflokksins er í frjálsu falli. Miðflokkurinn heggur í fylgi flokksins og er orðinn mun stærri eð Framsókn þrátt fyrir Klausturhneykslið. Í nýjustu skoðanakönnunum er Framsóknarflokkurinn kominn niður í 8% fylgi sem gerir hann að minnsta flokknum sem kæmi mönnum á Alþingi. Þá er eins og forysta flokksins vakni og hefji að kynna gríðarleg áform um að verja ríkispeningum í allar áttir. Hér blandast einnig inn í hin afar ósanngjarna kjördæmaskipan. Atkvæði í Norð-austurkjördæmi vega þrefalt meira en atkvæði okkar á höfuðborgarsvæðinu. Það gerir það að verkum að stjórnmálamenn freistast til þess að kaupa sér fylgi í þeim kjördæmum þar sem dýru atkvæðin eru. Jöfnun atkvæðavægis er það eina sem gæti komið í veg fyrir þetta rugl. Þetta ástand er stórhættulæegt og getur kippt fótum undan fjármálum ríkisins ef ekki verður tekið í taumana. Hugmynd Sigurðar Inga um þrenn göng til Mjóafjarðar er það hættulegasta sem við er að etja nú um stundir varðandi fjármál ríkisins. Þingmenn annarra flokka verða að taka höndum saman um að stöðva þetta rugl sem allra fyrst. Annars fer illa.

Sigurður Ingi Jóhannsson leyfði sér nýlega að skipa vinkonu sína og dýralækni í embætti vegamálastjóra. Það embætti er sérhæft og krefst fagmanna með verkfræðimenntun. Hann gerði ekkert með það og skipaði dýralækninn í þetta embætti. Svo stendur hún frammi fyrir sjónvarpsmyndavélunum og styður kollega sinn að sjálfsögðu í vitleysunni. Hvernig ætli þeim þætti ef einhver skipaði lögfræðing eða prest í embætti yfirdýralæknis? Maður hélt að runnir væru upp þeir tímar á Íslandi að krafist væri meiri fagmennsku á öllum sviðum eins og skipan í embætti seðlabankastjóra er gott dæmi um. Nú er krafist fagþekkingar þar á bæ og menntunar á sviði hagfræði. Áður þótti í lagi að skipa í það embætti lögfræðinga eða rafmagnsverkfræðinga svo fremi að þeir væru uppgjafastjórnmálamenn. Ætla Íslendingar ekkert að læra, t.d. ekkert af Hruninu?

Ef stjórnmálamenn stöðva ekki ruglið í dýralæknunum verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir standi vaktina og sýni fram á hve alvarleg mistök það yrðu að binda trúlega 100 milljarða af skattfé Íslendinga í þremur jarðgöngum á Austfjörðum. 

Skattgreiðendur gætu einnig tekið höndum saman og risið upp gegn ábyrgðarleysinu. Það hittist svo vel á að skattgreiðendur eru einnig kjósendur.

Nýjast