Bjargaði Ásgerður bæjarstjórastólnum tímabundið?

Bjargaði Ásgerður bæjarstjórastólnum tímabundið?

Forysta Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi er klofin vegna afstöðu til borgarlínu. Einn bæjarfulltrúa flokksins, Magnús Örn Guðmundsson, kaus gegn því í bæjarstjórn að Seltjarnarnesbær leggði fram fjármuni vegna undirbúnings borgarlínu eins og öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðisfélag Seltirninga hefur sent frá sér bókun og styður afstöðu Magnúsar. Flokkurinn á nú fjóra bæjarfulltrúa af sjö en hinir þrír greiddu atkvæði með því á bæjarstjórnarfundi í gær að taka þátt. Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson stóðu með þremur fulltrúum minnihlutans sem samþykktu fjárframlag til borgarlínu.

 

Í fjölmiðlum í gær kom fram að Sigrún Edda ætlaði að kjósa með minnihlutanum og samþykkja fjárframlag til borgarlínu. Vitað var að Magnús er harður á móti. Ásgerður hefur verið andsnúin borgarlínu en ákvað á fundinum í gær að styðja málið. Menn velta fyrir sér hvers vegna henni snérist hugur. Sú skýring hefur verið nefnd að hefði hún staðið með Magnúsi Erni Guðmundssyni og verið á móti, þá hefði í raun kominn upp nýr meirihluti í bæjarstjórn Seltjarnarness sem hefði getað leitt til þess að Ásgerður Halldórsdóttir yrði að víkja fyrir nýjum bæjarstjóra. Borgarlínumálið hefur verið hitamál innan flokksins á Nesinu og nægilega stórt til að kljúfa flokkinn eins og atburðir gærdagsins sýna.

 

En borgarlínan er ekki eina málið sem veldur óróa vegna meirihlutans á Seltjarnarnesi. Lélegur rekstur bæjarins hefur verið gagnrýndur. Það þykir óviðunandi að þetta stönduga bæjarfélag sé rekið með tapi. Mörgum finnst það óskiljanlegt í ljósi þess að meðaltekjur í bænum eru með því allra hæsta sem gerist á landinu og þar með útsvarstekjur sveitarfélagsins. Þá eru framkvæmdir ekki miklar miðað við mörg önnur sveitarfélög þar sem bærinn er nær fullbyggður. Sitthvað annað veldur ólgu. Stjórnsýsla Ásgerðar og Magnúsar Arnar Guðmundssonar, forseta bæjarstjórnar, þykir klunnaleg og einkennast af valdhroka. Ekki þarf mikið að bera útaf til að grundvöllur gæti skapast fyrir nýjum meirihluta í bæjarstjórn Seltjarnarness. Talið er að mun meiri sátt gæti náðst um Sigrúnu Eddu sem bæjarstjóra en hún getur hæglega myndað nýjan meirihluta með núverandi minnihluta bæjarfulltrúa.

 

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni í bæjarstjórn Seltjarnarness á næstunni. Með því að styrja fjárframlög til borgarlínu – gegn vilja flokksfélagsins – má ætla að Ásgerður Halldórsdóttir hafi náð að bjarga bæjarstjórastólnum og starfi sínu. Alla vega tímabundið.

 

 

Nýjast