Allt hefur sinn tíma – líka Sjálfstæðisflokkurinn

Allt hefur sinn tíma – líka Sjálfstæðisflokkurinn

Undarlegt hefur verið að litast um yfir leiksvið íslenskra stjórnmála undanfarin misseri. Íslendingar hafa auðvitað þurft að skapa sína eigin útgáfu þeirrar alþjóðlegu þróunar sem er að endurvakna víða um heiminn, hér kannast menn líklega best við Brexit-kosningarnar í Bretlandi og Trump í Bandaríkjunum. Líka má nefna Orban í Ungverjalandi, Duterte á Filipseyjum og Bolsonaro í Brasilíu og uppgang einstaka flokka í Evrópu.

Þetta er oftast kennt við popúlisma eða lýðskrum. Er þá átt við að til að afla fylgis nota leiðtogar þessara afla einfaldar og ódýrar lausnir, en þaulprófaðar og árangursríkar. Þeir búa til óvini, gera almenning hræddan við óvininn og segjast einir geta kveðið hann niður. Sannleikur og staðreyndir eru víðs fjarri. Reyni einhver að benda á að málflutningurinn standist ekki skoðun er sá hinn sami kaffærður í svæsnustu árásum frá stuðningsmönnum leiðtogans.

Trump vann sigur í Bandaríkjunum með ósvífnum og linnulausum lygum. Útgöngumenn unnu Brexit-kosningarnar með ósvífnum lygum. Duterte gerir morð lögleg með því að bendla fórnarlambið við dópsölu, sannleiksgildi ásakananna er aldrei kannað, með þessu tekst honum að búa til þá falsmynd að glæpatíðni hafi minnkað í ríkinu, með því semsagt einfaldlega að skilgreina glæpina ekki lengur sem glæpi! Allir æpa þessir menn ókvæðisorð að umheiminum þegar einhver vogar sér að efast um mikilleik þeirra.

Og Íslendingar hafa líka eignast sinn leiðtoga af þessu tagi. Honum sárnaði svo að takast ekki að vinna í formannskosningum gamla flokksins síns að hann stofnaði nýjan og kallar Miðflokkinn. Sá flokkur vinnur hörðum höndum að því að ræna og sölsa undir sig völd og áhrif langt umfram þingstyrk, hann hélt Alþingi í gíslingu í byrjun sumars og er svo byrjaður aftur núna. Sannleikur og staðreyndir skipta flokksmenn engu máli, þeir bara forherðast og verða enn ósvífnari í hvert sinn sem reynt er að benda þeim á að fullveldi, sæstrengur og hvað nöfnum tjáir að nefna koma þriðja orkupakkanum alls ekkert við. Þeim barst óvæntur liðsauki snemma í þessum málflutningi sínum. Fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins leggjast af alefli á árarnar með þeim og ýmsir fyrrverandi áhrifamenn flokkanna líka. Þessum fyrrverandi foringjum er að takast það nú, sem langtíma andstæðingum flokkanna tókst aldrei: Að sundra flokkunum og tæta af þeim fylgið.

Þetta á sérstaklega við Sjálfstæðisflokkinn. Nú er svo komið fyrir þeim flokki að hann er ekki einu sinni svipur hjá sjón. Helmingur fylgisins er farið og það heldur áfram að minnka í hverri mælingu. Sjálfstæðisflokkurinn, sem varð til með sameiningu þingflokka Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929 hefur frá upphafi rúmað viðhorf beggja þeirra fylkinga. Nú, á 90 ára afmælisárinu, bregður hins vegar svo við að forpokaðasti íhaldshópurinn í flokknum, undir forystu fyrrverandi formanns flokksins, hamast af slíkri heift og offorsi á hinum frjálslyndari hlutanum að sá er að hrekjast frá flokknum. Ekki aðeins að ganga úr flokknum, heldur hættur að kjósa hann í kosningum.

Eftir situr harður og fámennur kjarni fúllyndra og afturhaldssamra karla sem skemmta sér við að ráðast með illsku sinni að öllum þeim sem telja frjálslyndi og víðsýni og heilbrigð samskipti við aðrar þjóðir vera til heilla fyrir land og þjóð. Þess verður ekki langt að bíða að þessi fúllyndi hópur áttar sig á að ekki borgar sig að halda úti formlegum stjórnmálaflokki utanum fýlu sína – hópurinn gengur í Miðflokkinn. Morgunblaðið þarf ekki að breyta ritstjórnarstefnu sinni við þá atburði, þeir eru búnir að breyta blaðinu í málgagn Miðflokksins.

Hallgrímur orti um dauðans óvissa tíma. Víst er að allt hefur sinn tíma, stjórnmálaflokkarnir líka. Nú er tími Sjálfstæðisflokksins ekki lengur svo óviss, hans tími er einfaldlega liðinn – á 90. afm

 

Nýjast