Búið að kyrrsetja togarann heineste í namibíu - björgólfur: „allt undir „control“

Togarinn Heineste hefur nú verið kyrrsettur af yfirvöldum í Namibíu. Togarinn er í eigu félags í Namibíu sem Samherji á hlut í.

Rúv greindi frá og segir að ekki hafi náðst í Björgólf Jóhannsson, starfandi forstjóra Samherja vegna málsins en að kyrrsetningin virðist hafa verið gerð til þess að hægt sé að leita í skipinu.

Í gær greindu fjölmiðlar frá því að skipstjórinn Arngrímur hafi verið handtekinn sakaður um að hafa siglt skipi inn á lokað svæði. Hefur hann hafnað sekt sinni og sagt handtökuna hafa komið sér á óvart.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Björgólfur Jóhannsson að ásakanir á hendur Arngríms snerust um að hann hefði farið á Heinaste yfir línu en að áhöld væru um hvort að það hefði gerst. Þá sagði Björgólfur málið vera: „Allt undir „control“. Þetta eru ásakanir sem voru ekki að gerast í gær eða fyrradag en hann er ekki í varðhaldi eða neinu slíku.“