Brynjar eða Jón Gunnarsson munu vinna slaginn um ritara Sjálfstæðisfokksins

Brynjar eða Jón Gunnarsson munu vinna slaginn um ritara Sjálfstæðisfokksins

Talið er fullvíst að Jón Gunnarsson og Brynjar Níelsson sækist ákveðið eftir stöðu ritara Sjálfstæðisflokksins þegar Áslaug Arna er tekin við ráðherraembætti og má því ekki gegna ritaraembættinu lengur samkvæmt reglum flokksins. Kosið verður um embættið á flokksráðsfundi um miðjan september.

Þeir Jón og Brynjar eru miklir mátar og þeir munu ekki bjóða sig fram hvor á móti öðrum. Talið er að í dag hafi þeir ráðið ráðum sínum um það hvor þeirra fari í framboð. Von er á yfirlýsingu frá öðrum hvorum þeirra um helgina. Sá þeirra sem tilkynnir framboð mun væntanlega fara með sigur af hólmi því talið er að forysta flokksins með formanninn í fararbroddi vilji annan hvorn þeirra í embættið. Þá er talið líklegt að Brynjar eða Jón taki við formennsku í utanríkismálanefnd sem Áslaug Arna hefur gegnt. Annar verður því ritari flokksins en hinn formaður nefndarinnar.

Strax í gær var farið að dreifa sögum um líkleg framboð til embættis ritara. Nefnd voru nöfn eins og Hildur Björnsdóttir, Eyþór Arnalds og Elliði Vignisson. Ekkert þeirra á neinn möguleika á að hljóta stuðning á flokksráðsfundinum. Eyþór og Hildur eru leiðtogar þeirra fylkinga sem takast á í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hópurinn er klofinn. Hildur, Katrín Atladóttir og Valgerður eru ekki tilbúnar að lúta forystu Eyþórs sem hefur engin tök á borgarstjórnarflokknum. Horugt þeirra á erindi í stærri embætti innan flokksins enda hefur ferill flokksins í borgarstjórnarminnihlutanum á þessu kjörtímabili verið aumkunarverður í samstarfi við Vigdísi Hauksdóttur. Elliði Vignisson gæti átt einhvern stuðning meðal hörðustu uppreisnarmanna flokksins sem mest hafa haft sig í frammi vegna orkupakkamálsins. En það er þröngur og fámennur hópur. Elliði á enga möguleika.

Gera má ráð fyrir að alþingismaður verði fyrir valinu þegar Sjálfstæðisflokkurinn kýs næsta ritara þann 14. september.

Því er spáð hér að Jón Gunnarsson verði fyrir valinu og að Brynjar Níelsson taki við formennsku í utanríkismálanefnd.

Nýjast