Brynjar birtir leiðréttingu: „konan er víst ekki eins ung og ég hélt“- jón ekki svo fúll

Jón Gunnarsson þingmaður og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, hafa bæði tilkynnt um framboð sitt til ritara Sjálfstæðisflokksins. Áslaug Arna Sigur­björns­dóttir sinnti því starfi áður en hún hefur nú tekið við embætti dómsmálaráðherra. Samkvæmt reglum flokksins getur ritari ekki setið sem ráðherra. Kosið verður á morgun, 14. september.

Brynjar Níelsson var orðaður við stöðuna en gaf út að hann hefði engan áhuga á að sinna því. Brynjar skrifaði innlegg á Facebook fyrr í dag sem fékk dreifingu í fjölmiðlum. Þar sagði Brynjar:

„Nú á að kjósa nýjan ritara Sjálfstæðisflokksins um helgina, sem er mikilvægt og merkilegt djobb. Þar keppa fýldur miðaldra karl og ung kona úr Garðabæ. En það vita ekki allir að til er enn merkilegri staða innan flokksins, sem er “næstum því ráðherra”. Í hana hefur verið sjálfkjörið seinustu ár.“

Brynjar hefur nú séð sig knúinn til að birta leiðréttingu. Þar segir hann að Jón Gunnarsson sé ekki svo fýldur og Áslaug Hulda ekki eins ung og hann taldi hana vera. Brynjar segir:

„Þarf aðeins að laga og leiðrétta færsluna frá því í morgun. Karlframbjóðandinn í ritara starfið er ekki svo fýldur og kominn yfir það að teljast miðaldra. Konan er víst ekki eins ung og ég hélt. Þekki karlinn, sem er einkar duglegur og kraftmikill og ólíkt mörgum öðrum stjórnmálamönnum setur hann sig vel inn í málin og talar af þekkingu. Hann býr í Kópavogi.“