Björt: „Mikið hryggir þetta mig, og mikið er hundfúlt að segja I told you so“

Björt: „Mikið hryggir þetta mig, og mikið er hundfúlt að segja I told you so“

Í færslu sem Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, birtir á Facebook-síðu sinni í dag leggur hún út af frétt um að kísilverið á Bakka við Húsavík gæti þurft 5 milljarða króna til að geta starfað áfram. Fjárfesting Íslandsbanka og lífeyrissjóðanna Gildis, Stapa og Birtu í kísilverinu nemur um 10 milljörðum króna.

Ástæðan fyrir þörf kísilversins á auknum fjármunum er meðal annars sögð vera miklar tafir við uppsetningu á búnaði og að koma verksmiðjunni í fullan gang. Þá hefur kísilverð lækkað á heimsmarkaði.

„Mikið hryggir þetta mig, og mikið er hundfúlt að segja I told you so, en við þessu varaði ég og gott fólk í litlum flokki á þingi sem hét Björt framtíð. Kísilmálmver á Bakka er, og var alveg frá byrjun vond hugmynd. Keyrð áfram af fólki til að koma eitthvað um þúsund atkvæðum í NA kjördæmi í kassann hjá umhverfisflokknum VG,“ segir Björt.

Vísar hún þar til Steingríms J. Sigfússonar, sem mælti fyrir framkvæmdinni. Í febrúar árið 2013, þegar Steingrímur var atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skrifaði hann undir yfirlýsingu um samstarf ríkisins við Norðurþing, Hafnarsjóð Norðurþings og þýska iðnfyrirtækið PCC vegna áforma um uppbyggingu kísilvers á Bakka. Þá var jafnframt undirritað samkomulag milli Norðurþings, Hafnarsjóðs Norðurþings og íslenska ríkisins um ýmsar nauðsynlegar aðgerðir svo hægt yrði að ráðast í atvinnuuppbyggingu á Bakka.

Gífurlegur kostnaður

Björt segir aðra flokka hafa verið sammála um að kísilver á Bakka væri slæm hugmynd. „Ég veit eiginlega ekki til hvaða stjórnmálamanna hægt er að höfða til með þessi málefni. Nú hafa hægri menn hingað til ekki haft háværan áhuga á umhverfisvernd en horft á arðsemina.“

Hún nefnir dæmi um þann gífurlega kostnað sem framkvæmdin hefur haft í för með sér. „Fljótt til tekið held ég að stjórnvöld hafi látið almenning borga um 40-70 milljarða í meðgjöf með þessu öllu. það er einn Landspítali svona til samanburðar. Það þurfti að virkja Þeystareyki hjá Landsvirkjun. Það þurfti að leggja línur hjá Landsneti, það þurfti göng á staðnum, höfn á staðnum. Það þurfti fjárfestingasamning, það þurfti Vaðlaheiðargöng en látum þau liggja á milli hluta. Þau munu nýtast þó framkvæmdin hafi verið allt of dýr.“

„Svo var líka vitað að PCC vill stækka, og það er næsta víst að þeir munu leggja áherslu á það svo að starfsemin „geti frekar orðið arðbær“ þá þarf almenningur í gegnum Landsvirkjun að skuldsetja sig enn meira vegna virkjana sem til þarf,“ bætir Björt við.

Sótsvart mengandi iðnaðarver

Að lokum veltir hún því fyrir sér hver ávinningurinn sé af kísilveri sem standi ekki undir rekstri. „Og fyrir hvað? Sótsvart mengandi iðnaðarver, sem rekur sig ekki. Og almenningur er aftur látin borga því að stærstu lífeyrissjóðum landsins fannst þetta frábært fjárfestingatækifæri. Lífeyrinn sem þú vinnur þér inn um hver mánaðarmót átti að ávaxtast þarna. En það gerir hann nefninlega ekki miðað við þessar áætlanir. Þá eruð þið beðin um að borga meira inn, leggja meira að veði. Vill fólk það?“

Nýjast