BIRT MEÐ LEYFI EKKJUNNAR

Anna Kristjánsdóttir skrifar frá Tenerife:

BIRT MEÐ LEYFI EKKJUNNAR

Dagur 165 - Þrjár miðaldra konur.

(Birt með góðfúslegu samþykki ekkjunnar)

Um daginn var úr vöndu að ráða. Vinkona mín hafði skyndilega misst mann sinn og þurfti á kvíðastillandi lyfjum að halda sem og svefnlyfjum á meðan hún var að komast yfir mestu erfiðleikana. Okkur var bent á enskumælandi lækni sem gæti auðveldlega sinnt henni og þangað héldum við þrjár, ekkjan, ég sem vissi hvar lækninn var að finna og loks sú þriðja sem ók bílnum. Svo settumst við allar þrjár á biðstofuna og biðum þess að ekkjan yrði kölluð inn og þegar læknirinn kallaði vildi hann okkur allar þrjár inn til sín í einu sem mér þótti einkennilegt.

Myndarlegur læknirinn byrjaði á að beina orðum sínum að mér, en ég var sú eina sem hann hafði hitt áður, þó ekki sem sjúklingur. Ég benti honum hinsvegar á ekkjuna sem þurfti á læknisaðstoð að halda og þá áttaði hann sig og fékk hún réttláta hjálp og við gátum haldið á braut eftir góða læknisaðstoð. Þegar út var komið benti ekkjan okkur á skilti fyrir utan læknastofuna hvar á stóð:
GP SURGERY - STD CLINIC.

Að sjálfsögðu hafði ég ekki hugmynd um hvað STD Clinic var en þóttist vita að GP surgery væri fyrir almennar lyflækningar. Þegar ég komst að því hvað STD Clinic þýddi skyldi ég loksins af hverju læknirinn kallaði okkur þrjár miðaldra konurnar allar inn í einu sem og af hverju sumir gáfu okkur einkennilegt augnaráð er við komum á biðstofuna.

STD = Sexually transmitted diseases = Kynsjúkdómar.

Nýjast