Birgir segir ekki tilefni til atkvæðagreiðslu meðal Sjálfstæðismanna um þriðja orkupakkann

Birgir segir ekki tilefni til atkvæðagreiðslu meðal Sjálfstæðismanna um þriðja orkupakkann

Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki tilefni til að efna til atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna um þriðja orkupakkann. Inntak og eðli málsins gefi ekkert tilefni til þess. Hann segir engin fordæmi fyrir að heimild til slíkrar atkvæðagreiðslu hafi verið beitt en hún sé nýlega tilkomin í skipulagsreglum flokksins. Hann segist ekki vita til þess að slík undirskriftasöfnun sé hafin.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er frétt frá því í gær þar sem Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins og andstæðingur þriðja orkupakkans, viðraði hugmynd um að láta atkvæðagreiðslu fara fram meðal Sjálfstæðismanna um þriðja orkupakkann. Miklar deilur eru í flokknum vegna málsins og segja ýmsir, þar á meðal Styrmir, að þingflokkurinn sé ekki í takt við grasrótina í flokknum í þessu máli.

Haft er eftir Birgi að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér neinar stórfelldar breytingar eins og stundum sé gefið í skyn.

”Þetta mál hefur að mínu mati fengið mun meiri umfjöllun og gagnrýni en innhald þess gefur tilefni til. Það er út af fyrir sig staða sem þarf með einhverjum hætti að bregðast við, en gefur að mínu mati ekki tilefni til almennrar atkvæðagreiðslu.”

Er haft eftir Birgi sem segist eiga von á fundarhöldum á næstunni vegna málsins sem og vegna stöðunnar í stjórnmálum.

”Þingflokkurinn hefur rætt það, vegna þessara skiptu skoðana innan flokksins, að það sé brýnt að nota sumarið til að eiga samtöl við flokksmenn með einum eða öðrum hætti og ræða þetta mál, koma sjónarmiðum á framfæri og hlusta á athugasemdir.”

Birgir segir að þegar ákvarðanir voru teknar um þriðja orkupakkann í þingflokknum hafi það verið gert án andmæla og telji hann enga ástæðu til ætla annað en að samstaða þingflokksins haldist áfram.

Nýjast