Biðlisti hjá píetasamtökunum - kristín: „það er hræðileg staða - fólk sem er í sjálfsvígshættu á ekki að þurfa að bíða“

Í fyrsta skipti frá því að Píetasamtökin voru stofnuð er nú komin biðlisti af fólki í sjálfsvígshættu. Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píetasamtakanna segir stöðuna hræðilega.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að samtökin sem vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum sé í fyrsta skipti að upplifa slíka stöðu.

„Það er kominn biðlisti hjá okkur í fyrsta sinn. Það er hræðileg staða. Fólk sem er í sjálfsvígshættu á ekki að þurfa að bíða. Okkur bráðvantar fleiri fagmenntaða til starfa og meira fjármagn. Við viljum ekki vísa fólki frá,“ sagði Kristín Ólafsdóttir í viðtali við Morgunblaðið.

Þeim sem leita sér aðstoðar hjá samtökunum hefur fjölgað en samtökin voru stofnuð í apríl á síðasta ári. Upphaflega voru fleiri konur en karlar sem leituðu sér aðstoðar vegna sjáflsvígshugsana en í dag eru kynjahlutvöllin orðin nokkuð jöfn.

„Sjálfsvígshugsanir virðast ekki spyrja ekki um aldur, stétt eða stöðu þeirra sem þær leita á,“ sagði Kristín en samtökin reyna að hjálpa fólki sem glímir við neyslu vímugjafa, geðsjúkdóm eða andleg veikindi í viðeigandi meðferð.