Biðlistar eru í tónlistarnám barna - getur kostað 150 þúsund sem ýtir undir stéttskiptingu, segir menntaskólastjórnandi og að hildur guðna hafi sýnt gildi tónlistarskólanna.

Sigurganga Hildar Guðnadóttur tónskálds hefur vakið athygli á starfi tónlistarskóla á Íslandi. Þaðan útskrifast nemendur sem síðan vinna stóra sigra úti í heimi og auka hróður okkar Íslendinga.

Á Íslandi starfa um 90 tónlistarskólar. Hjá þeim starfa um 900 kennarar og nemendur eru um fimmtán þúsund talsins.

Freyja Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólameistari hjá Menntaskóla í tónlist ræddi í þættinum 21 við Lindu Blöndal um hvernig megi auka aðgengi fleiri barna og ungmenna að tónlistarnámi.

Hildur lærði á Selló í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og er uppalin í tónlistarskólum hér heima áður en hún fór ytra til að mennta sig frekar með þekktum árangri.

Freyja segir að nú sé hægt að taka stúdentspróf í tónlist og jafnvel stúdentspróf í popptónlist eftir að menntaskóli í tónlist tók til starfa.

„Þarna erum við með skóla sem er með ryþmíska deild, jassíska deild og popp en nemendur geta sótt í aðrar deildir líka“, segir Freyja. Hægt er í dag að taka stúdentspróf í popptónlist.

Það rímar við það sem kynslóð Hildar Guðna  – og hinnar eldri líka – hefur verið að gera á undanförnum árum sem er að blanda saman ólíkum stefnum og gera tilraunir án takmarkana. Eins og Hildur sem hefur farið sína persónulegu leið í tónlistarsköpun.

Þetta tekur Freyja undir:

„það er einmitt mikilvægt að nemendur geti mótað sitt nám að sínu áhugasviði en aðgengið þarf að vera gott. Það hefur verið nokkuð almennt að fólk fari í tónlistarnám á Íslandi en það mætti gera betur. Það eru langir biðlistar í suma skólana, í Reykjavík til dæmis og tónlistarnámið er í raun og veru aðeins of dýrt“, segir Freyja en það sé misjafnt á milli sveitarfélaga sem sum hver gera vel við sína skóla og sum hver byggt vel yfir skólana og þar sé litið á tónlistarskólana sem mikilvægar menningarstofnanir“.

„En eins og kannski í Reykjavík þar sem skólagjöldin eru kannski komin upp í 150 þúsund krónur þá erum við bara komin með skýra aðgreiningu eða stéttskiptingu“, segir Freyja.