Bára fékk styrk frá borginni: Vigdís: „Algjörlega til skammar“ – Hver vill halda ráðstefnu um dónakarla á vinstri vængnum?

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir harðlega að Mannréttindaráð hafi veitt Báru Halldórsdóttur, uppljóstraranum í Klausturmálinu, skyndistyrk að upphæð 226 þúsund krónur.

„Það vekur athygli að umsóknin er ódagsett. Er það vegna þess að verið er að gera upp bakreikninga og halla á þessari svokölluðu ráðstefnu? Er bara hægt að senda bakreikning á borgina og útsvarsgreiðendur?“

Þetta segir Vigdís Hauksdóttir í samtali við Eyjuna en styrkinn fékk Bára í fyrra, eftir að málfundur um Klausturmálið hafði farið fram. Félagar Vigdísar í Miðflokknum voru í aðalhlutverki í Klausturmálinu, þar sem fötluðum og konum var úthúðað. Vigdís segir um styrkinn:

 „Var þar um gríðarlega pólitíska ákvörðun að ræða á kostnað skattgreiðenda sem er ráðinu algjörlega til skammar. Þetta dæmi sannar að styrktarfé er notað í þeim tilgangi að ná höggi á pólitíska andstæðinga.“

Í svari til Vigdísar sagði meðal annars:

 „Skyndistyrkir hafa verið veittir á vegum mannréttindaráðs [...] Dæmi um slíka atburði eru myllumerkisbyltingarnar #MeToo, #FreeTheNipple og nú #Klausturgate. Það að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem fara með löggjafarvald vegi ómaklega að minnihlutahópum í samfélaginu með smekklausum athugasemdum hlýtur að teljast alvarlegur atburður sem hefur sig yfir almenna flokkspólitík sem almenningur og fulltrúar þvert á flokka geti sameinast um að standa gegn.“

Vigdís lagði fram aðra bókin og auglýsti eftir einhverjum til að halda ráðstefnu um dónakarla á vinstri vængnum.

„Þetta mál er herfileg misnotkun á almannafé. Hér er upplýst að 226.000 kr. af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga fóru í hápólitískan styrk. Er það hlutverk Reykjavíkur að fara svona með opinbert fé á meðan ekki er hægt að sinna grunnþjónustu á ýmsum sviðum borgarinnar. Hér er auglýst eftir aðila sem vill sækja um styrk til að halda ráðstefnu um káfkarlana á vinstri væng stjórnmálanna.“