Auglýsingastofur leyfa sér að falsa staðreyndir

Furðu vekur að Samband íslenskra auglýsingastofa skuli vera komið í rándýrt áróðursstríð vegna hugmynda sem ræddar hafa verið um að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Menn eiga erfitt með að átta sig á því hvernig þessi samtök auglýsingastofa leyfa sér að leggja í herferð af þessu tagi. Og það sem verra er: SÍA ber fram margar rangfærslur og flestar af stærri gerðinni. Einnig er mikilvægt að glöggva sig á því hvaða meintu hagsmuna sambandið telur sig vera að gæta.

Í heilsíðuauglýsingu sem SÍA hefur birt í dagblöðum er því haldið fram að störfum fækki ef RÚV fer af auglýsingamarkaði. Þetta er ekki rökstutt enda hrein rökleysa. Á auglýsingadeild RÚV starfa um 20 manns sem yrðu væntanlega óþarfir þar. Ætla má að aðrir fjölmiðlar þyrftu þá að bæta við sig sölufólki auglýsinga og því ætti það að koma í sama stað niður.

Í auglýsingunni er því haldið fram að mikilvæg leið auglýsenda til að birta auglýsingar hyrfi. Þetta er rangt því nægilegt framboð er af öðrum öflugum fjölmiðlum sem gætu þá birt auglýsingar í staðinn fyri RÚV.  

SÍA leyfir sér að halda því fram að „ríflega tveggja milljarða króna innspýtingu af skattfé“ þyrfti til að bæta RÚV tapið. Hér er um grófa staðreyndafölsun að ræða sem er Samtökum íslenskra auglýsingastofa engan vegin samboðin. Rétt er að brúttóauglýsingatekjur RÚV eru um tveir milljarðar króna. En kostnaður við að afla auglýsinganna og kostnaðiur við að undirbúa þær fyrir birtingu innan RÚV er áætlaður um 600 milljónir króna. SÍA hefði átt að taka tillit til þess kostnaðar!  Þá er viðbúið að RÚV haldi áfram að birta tilkynningar frá opinberum aðilum, dánarfregnir og jarðarfarir og jólakveðjur, svo eitthvað sé nefnt. Þetta gætu verið um 200 milljón króna tekjur á ári. Þá standa eftir um 1.200 milljónir króna – en ekki tveir milljarðar. Það yrði svo í valdi Alþingis að ákveða hvort framlög ríkisins yrðu aukin um þá fjárhæð eða hvort stofnuninni yrði gert að veita aðhald í rekstri eins og víða þykir við hæfi, bæði í einkarekstri og opinberum.

Þá segir í auglýsingu SÍA að störfum muni fækka í „skapandi greinum“ við tilfærslu auglýsinga frá RÚV til annarra fjölmiðla. Þessi staðhæfing er svo mikið út í hött að varla tekur því að ræða um hana. Ekki verður séð að gerð auglýsinga leggist af þó auglýsendur nýti sér þjónustu annarra fjölmiðla en RÚV.  Þessi staðhæfing SÍA stenst enga skoðun og hlýtur að teljast vera lélegur brandari. Nýta þarf íslenska framleiðslu með sama hætti hvort heldur auglýsingar birtast í miðlum RÚV eða í öðrum miðlum.

Loks mætti spyrja forsvarsmenn SÍA hvort þeim sé kunnugt um fyrirkomulag þessara mála hjá ríkisfjölmiðlum nágrannalandanna. Ef þeir vita það ekki þá er rétt að upplýsa þá um stöðu mála:

Hjá BBC í Englandi eru engar auglýsingar leyfðar. Í ríkisfjölmiðlum Norðurlandanna eru engar auglýsingar. Við berum okkur mest saman við frændur okkar á Norðurlöndunum og Breta. Hvers vegna ætli þessar þjóðir velji að leyfa engar auglýsingar í ríkisfjölmiðlum sínum? SÍA ætti að velta því fyrir sér. Varla getum við litið svo á að þessar þjóðir séu allar svo galnar að þær hafi tekið rangar ákvarðanir varðandi rekstur á ríkisfjölmiðlum sínum. Þó SÍA hafi sýnt dómgreindarleysi með birtingu auglýsinga sinna um þetta mál verður því tæpast trúað að sambandið treysti sér til að dæma allar þessar þjóðir grunnhyggnar þegar kemur að rekstri ríkisfjölmiðla.

Forsvarsmenn SÍA ættu að róa sig því þeir munu einnig fá umboðslaun af auglýsingum þó þær færist frá RÚV til annarra fjölmiðla.