Ásmundur kveður leif: „það tók þig ekki nema 9 ár að finna ljósið og mömmu þína“

„Þú varst bara 7 ára þegar þú ráfaðir aleinn í skóginum við Mandal. Heimabæ móður þinnar í Noregi og þú leitaðir hennar. Hún hafði verið tekin frá þér, farin upp til ljóssins sem þú reyndir að finna á milli þéttra trjátoppanna. En það tók þig ekki nema 9 ár að finna ljósið og mömmu þína eftir of stutta lífsgöngu, hrakinn og blautur.“

Þetta segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um Leif Magnús en þeir voru frændur. Ásmundur minnist Leifs á Eyjar.net. Leif Magnús lést þegar hann féll í Núpá í Sölva­dal í Eyja­firði þann 11. desember. Hann var fæddur í Noregi og átti norska móður og ís­lenskan föður. Leif var sex­tán ára gamall og flutti hingað til lands eftir að móðir hans var myrt í sorglegu sakamáli í Noregi.

Ásmundur skrifar:

\"\"„Þú sem elskaðir sveitina, túnin, heyið og heyskapinn á stórum vélum. Þú varst bara 15 ára, búinn að kaupa tvo traktora en fáir peyjar á þínum aldri geta stjórnað stærstu traktorum með heytætlur og rúlluvélar í eftirdragi. Ég man þegar ég koma fram að Mosunum í fyrra með þér, Páli Magnúsi heitnum og pabba þínum. Þú snaraðist út úr bílnum, tókst stórt skrúfjárn og tengdir milli pólana á rafgeyminum og vélin hrökk í gang. Snaraðist fimlega upp stigann, inn í risa traktorinn, kúplaðir heytætlunni inn, settir í gír og vélin æddi af stað. Þú varst mannalegur frændi.“

Ég horfði hugfanginn á eftir þér, þú hélst í stýrið og leist út um afturrúðuna til að athuga hvort allt væri í lagið og gjóaðir svo augunum til Ása frænda sem var eitt bros. Rosalega vorum við montnir á þessu augnabliki. Ég af þér og þú, náttúrubarn á heimavelli lífs þíns. Ég fylgdist með þér nokkrar ferðir suður engin milli Mosa og Ystabæli og sá sjálfan mig 50 árum fyrr, á gráum Ferguson í Steinum sem komst inn í aðra afturfelguna í traktornum sem Leif Magnús stjórnaði. Og í sumar þegar Leif og faðir hans tóku við Steinabúinu við fráfall Madda kom ég að þeim feðgum í heyskap. Grétar að raka heyi í garða og Leif Magnús rúllaði. Það stíflaðist í vélinni og minn maður sveiflaði sér út úr traktornum, lagðist undir rúlluvélina og reif úr henni heyið. Þarna var maður á ferðinni sem kunni sitt fag og sló ekki slöku við þó langt væri liði á kvöld eftir marga langa daga.“

Ásmundur segir að Leif hafi verið ákveðinn að verða bóndi. Hann hafi átt tvo traktora og verið klár í slaginn.

„En Leif átti ekki eins góða samleið með skólabókunum og sveitarlífinu. Maður þarf ekki að kunna dönsku eða samfélagsfræði til að geta unnið á stærsta traktórnum í sveitinni með rúlluvél í eftirdragi, eða aleinn að bera skít á tún fram á nótt. Gera við, vera maður og halda öllu gangandi En það er ekki prófað í skólanum hvað maður kann í lífinu. Ekki frekar en í þinginu. Þá hefði minn maður dúxað alla grunnskóla.“

Ásmundur segir að grunnskólakerfið sé ekki fyrir nemendur sem kunni meira á lífið en bækurnar. Leif hafi engu að síður ætlað sér að klára námið.

„Ég heyrði í honum rétt fyrir slysið og við ætluðum að hittast í Eyjum um jólin. Hann var kokhraustur og ætlaði að taka bílpróf í janúar og kaupa sér Mustang. Leif bar sig vel í símtalinu, en svo brast röddin. Hann var bara barn, blessaður litli frændi minn, óharðnaður og bjó að þyngri reynslu en barn á að bera. Ég sagði honum ekki frá því að við hinn endann á línunni láku líka tárin mín,“ segir Ásmundur og bætir við að lokum:

„Við kvöddumst sem vinir með tárvot augu. Síðasta kveðjan var blaut og köld eins og Leif þegar hann kvaddi þennan heim á leið inn í ljósið á milli trjátoppanna í Mandal.“

Votta Grétari Má, Óskari bróður mínum og fjölskyldunni samúð.“