Áslaug Arna eða eiginmaður dómarans

Áslaug Arna eða eiginmaður dómarans

Gengið var út frá því að Bjarni Benediktsson væri löngu búinn að ákveða að skipa Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra strax eftir að orkupakkamálið væri frá í þinginu.

Ríkisráð kemur saman á föstudag og þá bætist nýr ráðherra við núverandi ráðherralið. Eins og kunnugt er hefur enginn ennþá verið skipaður í stað Sigríðar Andersen sem hrökklaðist úr ríkisstjórninni síðastliðið vor en hún hefur verið dæmd fyrir embættisafglöp af íslenskum dómstólum og einnig fengið ávítur frá Evrópudómstólnum.

Ekki er víst að Áslaug Arna verði fyrir valinu. Sterkur orðrómur er um að mikil átök séu í flokknum um val á dómsmálaráðherra. Ýmsir telja að Birgir Ármannsson komi einnig til greina og jafnvel Brynjar Níelsson en þeir eru báðir löglærðir eins og Áslaug Arna. 

Verði Brynjar fyrir valinu þá mun það ekki síst vekja athygli fyrir það að hann er eiginmaður eins dómarans við Landsrétt sem allur vandræðagangurinn stafar af. Hins vegar telja margir að Brynjar hafi mikilvæga reynsluna að baka til að gegna þessu embætti en hann er Hæstaréttarlögmaður með áratuga reynslu úr lögmennslu áður en hann tók sæti á Alþingi.

Verði Brynjar eða Birgir fyrir valinu má búast við að konur í flokknum verði mjög ósáttar. Þá yrði einungis ein kona í ráðherraliði flokksins og kynjahallinn hrikalegur í ráðherrahópnum. Eins má ætla að yngra fólk í flokknum muni ekki taka því með þögn ef miðaldra karlmaður verður tekinn fram yfir hina þrítugu Áslaugu Örnu.

Hugsanlega lítur forystan þannig á að ekki sé lengur mikið um ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum og því ástæðulaust að taka sérstakt tillit til þess.

Nýjast