Ásgeir: „Ég skil reiðina vel“

Ásgeir: „Ég skil reiðina vel“

Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri er í afar einlægu helgarviðtali við Fréttablaðið sem kom út í dag. Ásgeir tjáir sig um hrunið, hvar hann stendur í pólitík, þá staðreynd að hann stami, mistök í aðdraganda hrunsins og svo systurmissi sem tók mjög á alla fjölskyldun

Ásgeir var áberandi á árunum í kringum bankahrunið. Þá var hann aðalhagfræðingur í greiningardeild Kaupþings og áberandi í fjölmiðlum. Ásgeir segir:

„Þegar ég kom inn var búið að selja bankana og útrásin hafin. Mörg útrásarverkefni höfðu heppnast og stór alþjóðleg fyrirtæki sprottið upp eins og Bakkavör, Actavis, Marel og Össur. Þetta voru öflug rekstrarfélög og gekk vel.“

Þá segir Ásgeir að bankarnir hafi hitt á töfrastund og árið 2000 hafi hlutabréfabólan ytra sprungið sem gerði það að verkum að fyrstu íslensku yfirtökurnar voru á mjög hagstæðu verði. Þá fór lánshæfi landsins í AAA árið 2002. Segir Ásgeir að þannig hafi útrásin skilað undraverðum árangri í upphafi.

„Það var ungt fólk sem stóð að útrásinni, mín kynslóð, fólk sem var að útskrifast úr háskólanum á sama tíma og EES-samningurinn tók gildi 1994 og landið opnaðist. Þau tóku yfir stjórn bankanna og fyrirtækjanna.“

Myndskeið frá þessum tíma hafa verið rifjuð upp. Ásgeir starfaði þá hjá Kaupþingi m.a. við að gera þjóðhagsspár. Ásgeir bætir við:

 „ ... þegar ég lít til baka átta ég mig á að bæði ég sjálfur og flestir aðrir voru frekar bláeygir á stöðu bankanna og hina miklu skuldsetningu sem hafði grafið um sig í atvinnulífinu.“

Eftir að Ásgeir var skipaður í Seðlabankann hafa sumir rifjað upp þennan tíma á ferli hans með gagnrýnum augum. Ásgeir segist skilja þær raddir.

Ásgeir segir: „Í hugum margra var ég andlit Kaupþings og ég skil reiðina vel. Ég sjálfur álít að þessi reynsla sé mjög verðmæt fyrir mig sem seðlabankastjóra – ég þekki nú fullvel þau víti sem þarf að varast.“ Þá segir Ásgeir á öðrum stað:

 „Þjóðin öll dró mikinn lærdóm af hruninu, fyrirtækin, stjórnmálin og almenningur, og við erum mun varkárari en áður. Þetta sést hvað best á því hvernig fyrirtæki eru rekin í dag, með minni skuldsetningu og meiri fagmennsku.“

Nýjast