Ásdís hefur áhyggjur af „skvísunum“: „Ef þau fá eingöngu svona, læra börnin ekki að tyggja og kyngja“

Ásdís hefur áhyggjur af „skvísunum“: „Ef þau fá eingöngu svona, læra börnin ekki að tyggja og kyngja“

Ásdís Jóhannesdóttir formaður samtaka dagforeldra í Hafnarfirði staðfestir að margir dagforeldrar hafi áhyggjur af þeirri þróun sem talin er tengjast vinsældum svokallaðra „skvísa“ sem er ungbarmatur í pokum sem börn geta sogið.

Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að færst hefur í vöxt að börn í kringum eins árs aldurinn séu alls óvön því að borða ómaukaðan mat og kunni jafnvel ekki að tyggja. Segir Ásdís sum börn jafnvel venjast því að fá nánast eingöngu mat úr skvísum og kunni þar af leiðandi ekki að borða mat í bitum og tyggja hann.

„Ég hef stundum sagt meira í gríni en eitthvað annað að þetta sé svona skvísukynslóðin. Auðvitað er þægilegt að nota þetta. Í ferðalögum er frábært að geta gripið í þetta. Þetta er ekkert slæmt einstaka sinnum. En ef þau fá eingöngu svona læra börnin ekki að tyggja og kyngja,“ segir Ásdís.

Steinþóra Þorsteinsdóttir, dagforeldri í Hafnarfirði segist einnig hafa áhyggjur af þróuninni og þá aðallega vegna þess að oft á tíðum sé innihald skvísanna næringarlítið og framleitt úr unninni matvöru.

Steindóra hefur unnið sem dagforeldri í átta ár og segir hún matarvenjur barna hafa breyst mikið frá því að hún byrjaði. Segir hún skvísurnar auðvelda lausn sem algengt sé að foreldrar noti til þess að gefa börnum sínum að borða. Þá segir hún dagmæður í dag alltaf vera að lenda í einu og einu barni sem neiti að borða annað og að þær séu allar að glíma við það hversu algengt þetta sé orðið.

Nýjast