Ármann beið í fimm daga: vissi af dómi sjálfstæðismannsins

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins segir í samtali við RÚV að hann ætli að skoða mál Guðmundar Gísla Geirdal, bæjarfulltrúa í sama flokki, eftir að hann var dæmdur til að greiða þrotabúi útgerðarinnar 50 milljónir. Hann skráði bát í eigu útgerðarinnar á son sinn og var það túlkað sem gjafagjörningur.

Í samtali við RÚV sagðist hann ekki vilja tjá sig um hæfi Guðmundar til að gegna trúnaðarstörfum fyrir bæinn.  Guðmundur ætlar að áfrýja málinu og hélt fram að þetta hefði ekki áhrif á stöðu hans sem kjörins fulltrúa.

Fulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn, Theodóra Þorsteinsdóttir, lítur málið alvarlegum augum og vill að Guðmundur víki úr nefndum og ráðum þar til niðurstaða liggur fyrir.

Ármann Kr. Segir í samtali við RÚV að hann hafi vitað af málinu en ekki frétt af því fyrr en á þriðjudag eða fimm dögum eftir að dómur féll. RÚV greindi frá málinu daginn eftir og segir Ármann að hann hafi þá rætt stuttlega við Guðmund.

Aðspurður hvort hann ætlaði að taka á málinu með einhverjum hætti svaraði hann: „Ég mun ekki setja neina vinnu í gang hér innanhúss hjá mér heldur mun ég leita til þeirra sem hafa kunnáttu á þessum málum. Það er ekki bara lögfræðin sem þarf að skoða. Ég mun bara fara yfir það.“