Anton: „ég hef aldrei losnað við óhugnaðinn“

„Ég bjó í Stokkhólmi veturinn 1986 og þótt ég hefði verið heima kvöldið sem Palme var myrtur hringdi ég til lögreglunnar þegar óskað var eftir upplýsingum frá almenningi. Þetta rifjast upp fyrir mér núna þegar fréttir greina frá því að saksóknari þar ytra hafi boðað lausn á morðgátunni eftir öll þessi ár og ætli að upplýsa málið á næstu mánuðum. Það skyldi þó ekki vera að lögreglan hafi loksins farið að rannsaka það sem ég hafði fram að færa?“

Þetta segir rithöfundurinn Anton Helgi Jónsson um morðið á Olof Palme sem skotinn var til bana þann 28. febrúar árið 1986. Hann var þá á heimleið úr kvikmyndahúsi í Stokkhólmi. Nýlega var greint frá því ytra að lögreglan væri komin á sporið en málið telst óupplýst. Anton Helgi var um skeið búsettur í Svíþjóð og var í Stokkhólmi þegar Olof Palme var myrtur. Anton Helgi segir:

„Nokkru áður en morðið átti sér stað sat ég í jarðlestarvagni ásamt félaga mínum. Þetta var seint um kvöld og fáir í vagninum en á einni stöð kom inn maður sem hlammaði sér niður í básinn hjá okkur og vildi endilega spjalla. Mér fannst strax eitthvað undarleg við hann en félagi minn sem var á stuttri ferð til útlanda tjattaði við hann á dönskuskotinni sænsku. Maðurinn gaf í skyn að hann væri lögreglumaður og veifaði einhverjum skilríkjum. Þá þóttumst við félagarnir báðir skilja að hann væri eitthvað undarlegur og vorum sjálfsagt tortryggnir á svip því maðurinn bætti um betur, hélt út jakkanum og sýndi inn á sig. Þar gat að líta stóra skammbyssu. Þegar við sáum hana nennti hvorugur okkar að tala við manninn lengur og til allrar hamingju hafði hann sig út á næstu brautarstöð. Okkur fannst þetta óþægileg lífsreynsla en fátt var um hana að segja að sinni, félagi minn flaug heim til Íslands daginn eftir, en ég var áfram í Stokkhólmi.“

Stuttu eftir að Anton og vinur hans hittu manninn var Olof Palme myrtur. Mynd af hugsanlegum morðingja var teiknuð með aðstoð vitna og birt í fjölmiðlum. Anton Helgi segir:

„Þessi mynd birtist í öllum blöðum og ég hrökk í kút þegar ég sá hana því þarna fannst mér lifandi kominn maðurinn sem sýndi okkur félögunum byssu í jarðlestinni. Ég hafði samband við lögregluna og gaf einhverja skýrslu um manninn símleiðis en hef svo ekkert heyrt,“ þá segir Anton Helgi:

„Ég hef aldrei losnað við óhugnaðinn sem gróf um sig innra með mér þennan vetur. Það eru til undarlegir menn sem ganga um á meðal okkar með skotvopn innan klæða.“

Guðmundur Andri Thorsson, skáld og þingmaður Samfylkingarinnar spyr: „Ja, hérna! Var þetta Petterson?“ Þar á Guðmundur Andri við Christers Pettersons, eiturlyfjafíkil sem var dæmdur vegna morðsins en sýknaður á æðri dómstigum. Anton Helgi svarar:

„Nei. En ef það gerðist seinna að ég fór með sömu lest skimaði ég iðulega eftir honum við Kristineberg þar sem hann fór út. Ef ég man þetta rétt þá fylgdi það löggutalinu hjá manninum að hann hefði verið að koma úr vinnunni þegar við félagarnir hittum hann; hann hefði verið að vakta Palme og heimili hans í Gamla stan. Ég held að okkur hafi þótt talið geðveikislegt. Óhugnaðurinn kom seinna.“