Andri á orðastað við hægri kjósendur

Á sama tíma og þjóðin veltir fyrir sér eiginleikum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, þess forsetaframbjóðanda sem staðfest er að muni blanda sér í leikinn eftir tvo daga, hefur minna farið fyrir fréttum af þeim kandídat í baráttunni um Bessastaði sem hefur hlotið langmest fylgi fyrir utan Ólaf Ragnar Grímsson í könnunum þar sem mældur er stuðningur við þá sem sannarlega hafa staðhæft að þeir bjóði sig fram. Þar er átt við Andra Snæ Magnason rithöfund en hann hefur talað mjög ákveðið fyrir umbótum á stjórnarskrá sem og áherslu á umhverfisvernd. Á opnum fundi um daginn sagði Andri Snær að hans kynslóð gæti vonandi sagt síðar: \"Við vorum kynslóðin sem bjargaði heiminum.\" Bessastaðir og forsetaembættið eru fyrirtaks vettvangur fyrir slíka baráttu að sögn Andra Snæs.

Flestir eru sammála um að forsetakjör verði spennandi, því staða Ólafs Ragnars Grímssonar hafi versnað vegna aflandsmála eiginkonu hans. Guardian sló upp í gær fjölmörgum svissneskum bankareikningum sem tengist Dorrit skv. lekagögnum og tengslum Dorritar við a.m.k. tvö aflandsfélög. Þá stendur leit blaðamanna að lögheimili forsetafrúarinnar yfir en Dorrit ferðast um með diplómatapassa sem First Lady of Iceland. Skv. Guardian er hún ekki skráð til heimilis í Bretlandi  og fyrir nokkrum árum flutti hún lögheimili sitt frá Íslandi og greiðir því ekki skatta hér. Nýverið neitaði Ólafur Ragnar í frægu viðtali við CNN að það gæti hugsast að Dorrit hefði tengsl við aflandsskjól. Margir sem áður studdu forsetann telja mögulegt í ljósi nýjustu afhjúpana að Ólafur hætti við framboð sitt ef marka má ummæli á samfélagsmiðlum. Baráttan um Bessastaði gæti því orðið opnari og tvísýnni en margir töldu daginn sem Ólafur Ragnar Grímsson ómerkti fyrri yfirlýsingu sína að hann hygðist hætta sem forseti í sumar.

Andri Snær hefur nú skrifað færslu á facebook í tilefni þess að Bjarni Benediktsson lýsti í gær yfir andstöðu við háspennulínu um Sprengisand en verndun hálendisins er eitt helsta baráttumál Andra Snæs.

\"Eins og einhver hefur kannski tekið eftir þá er ég í framboði til embættis forseta Íslands. Framboðinu er ekki stefnt gegn einstaka fólki eða flokkum heldur í þeirri trú að við getum fundið sameiginlega sýn. Vinir mínir og frændur sem hafa hallast til hægri höfðu áhyggjur af því að ég gæti verið of róttækur í umhverfis og hálendismálunum. Ég svaraði þeim (í gríni), ,,Já ég þarf að færa miðjuna aðeins nær.\" Það er ærið verkefni að færa miðjuna en er þetta ekki í áttina?\" spyr Andri og taggar m.a. í færslu sinni þann sjálfstæðismann sem e.t.v. hefur stærstan her fylgismanna í krngum sig, sjálfan Elliða Vignisson bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.

Áður eru dæmi um að Andri og Elliði hafi tekist hressilega á vegna fyrri skrifa Andra. Hitt er nýtt í baráttunni að Andri beini orðum sínum sérstaklega til sjálfstæðismanna og er talið til vitnis um að hann hafi ekki boðið sig fram til að hætta við síðar til að rýma til fyrir öðrum. Athygli vakti í könnun Frjálsrar verslunar að ekki einn einasti framsóknarmaður á landinu sagðist þar ætla að kjósa Andra Snæ. Nokkrir sjálfstæðismenn voru í stuðningshópi hans. Guðni er talinn geta sótt fylgi bæði til vinstri og hægri en ólíkt Andra Snæ hefur Guðni ekki talað fyrir mikilvægi þess að breyta stjórnarskránni sem túlkað hefur verið sem bæði ógn og tækifæri fyrir Guðna.

Staðan er þannig nú að þrír karlar eru skv. fylgiskönnunum líklegastir til að berjast um Bessastaði. Vera má að fleiri konur komi fram á lokasprettinum en enginn skyldi þó vanmeta fylgi Höllu Tómasdóttur sem gæti vaxið mjög, segir einn stuðningsmanna Höllu í samtali við Hringbraut.

-BÞ