Almenn bólusetning hjá börnum sparað íslensku samfélagi tæplega einn milljarð

Almenn bólusetning hjá börnum sparað íslensku samfélagi tæplega einn milljarð

Almenn bólusetning hjá börnum gegn pneumókokkum á Íslandi hefur reynst árangursrík og hagkvæm síðan hún hófst hér á landi árið 2011. Hagkvæmnisútreikningar kostnaðar fyrir fyrstu fimm árin eftir innleiðingu bóluefnisins sýndi sparnað fyrir íslenskt samfélag upp á tæplega einn milljarð króna á verðlagi ársins 2015.

Frá þessu er greint á vef embættis landlæknis.

Þar segir að pneumókokkabakteríur geti valdið margvíslegum sýkingum eins og miðeyrnabólgu, kinnholubólgu, lungnabólgu og alvarlegum ífarandi sýkingum eins og blóðsýkingum og heilahimnubólgu.

Vísað er til nýlegrar doktorsritgerðar Elíasar Sæbjörns Eyþórssonar, sem hann varði þann 5. júní síðastliðinn. Í henni var sýnt fram á að bólusetningin hafði minnkað sýklalyfjanotkun hjá börnum um tæplega 6 prósent, fækkað innlögnum barna á sjúkrahús vegna lungnabólgu um 20 prósent og fækkað miðeyrnabólgum og alvarlegum ífarandi sýkingum hjá börnum marktækt.

„Þessar niðurstöður sýna glöggt að bólusetningar eru ekki einungis áhrifaríkar til að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar heldur einnig eru þær afskaplega kostnaðarhagkvæmar,“ segir í frétt embættis landlæknis.

Dánartíðni um 10 prósent

Í umfjöllun Mbl.is um málið segir að sjúk­dóm­ar af völd­um pneumó­kokka hafi verið viðvar­andi heilsu­far­svanda­mál á Íslandi og að svo virðist sem tíðni al­var­legra sýk­inga af völd­um þess­ara bakt­ería sé hærri hérlendis en í mörg­um ná­læg­um lönd­um. Dán­artíðni af völd­um þessara sjúk­dóma er um 10 prósent hér á landi.

Ífar­andi pneumó­kokka­sýk­ing­ar hafa verið nokkuð stöðugar síðastliðin 10 ár. Á Íslandi greinast að jafnaði um 50 ein­stak­ling­ar á ári með al­var­lega sýk­ingu, en í fyrra var tilkynnt um 31 smit af völdum pneumókokka. Að jafnaði eru um 10 börn und­ir 5 ára aldri sem sýkjast á hverju ári en algengast er að fullorðnir einstak­ling­ar sem komn­ir eru yfir sex­tugt sýkist. Ífar­andi sýk­ing­ar eru sjald­gæf­ar meðal barna og full­orðinna í öðrum ald­urs­hóp­um.

Nýjast