Allt gekk á afturfótunum en elskar samt ísland: ákvað að gefa peningana

Kínverski ferðamaður-inn Wei Li heldur af landi brott um helgina. Wei Li flaug í síðustu viku til Íslands með rúmlega 170 kíló af íslenskri mynt að andvirði um 1,6 milljónir króna. Þetta er í þriðja sinn sem Wei Li fjármagnar Íslandsferð með þessum hætti. Að þessu sinni neitaði bankinn að skipta peningunum og kallaði til lögreglu sem mættu í bankann gráir fyrir járnum. Í Fréttablaðinu kom fram að hann fengi myntina frá myntbraskara úti í Kína.

„Ég veit ekki hvaðan allt kemur en hluti kemur frá endurvinnslufyrirtæki sem kaupir samanpressaða bíla frá Íslandi. Þar leynist mikið af mynt,“ sagði Wei Li. Fyrirkomulagið hefur verið þannig að hann borgar ekki krónu fyrir myntina nema ef honum tekst að skipta henni hérlendis. Þá fær myntbraskarinn sanngjarnan hlut. Stór hluti af myntinni er skemmdur eins og sjá má á mynd.

\"\"

Wei Li átti fund með Samhjálp og gaf samtökunum ríflegan hluta af þeirri mynt sem hann var með undir höndum. Wei Li sagði:

„Ég vona að íslenskir bankar verði liðlegri við þau en mig.“ Þá bætti Wei Li að hann væri ánægður með Íslandsferðina þrátt fyrir allt. Hann sagði:

„Ég elska Ísland. Það er draumur minn að kynna töfra Íslands fyrir dóttur minni.“