Allt á suðupunkti á Facebook: Meirihlutinn ber ábyrgð á formennsku Bergþórs - Kúguðu minnihlutann til að hleypa Miðflokksmanninum að

Allt á suðupunkti á Facebook: Meirihlutinn ber ábyrgð á formennsku Bergþórs - Kúguðu minnihlutann til að hleypa Miðflokksmanninum að

Gríðarleg óánægja er með að Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins og einn Klausturþingmanna, hafi tekið að nýju við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í dag. Aðeins tveir greiddu atkvæði, Bergþór sjálfur og Karl Gauti Hjaltason annar þingmaður Miðflokksins. Aðrir sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Hefur minnihlutinn verið gagnrýndur víða á samfélagsmiðlum í dag fyrir að sitja hjá við atkvæðagreiðslu og þannig greitt götu Bergþórs. Minnihlutinn leit svo á að það væri í raun það eina sem hægt væri að gera í stöðunni, að mótmæla í þögn en samþykkja ekki kosninguna. Hefði minnihlutinn greitt atkvæði gegn Bergþóri hefði meirihlutinn tekið yfir allar nefndir. RÚV greindi frá þessu fyrr í vikunni en sú frétt virðist ekki hafa farið hátt.

Það sem margir átta sig ekki á er að meirihlutinn og minnihlutinn höfðu gert með sér samkomulag. Stjórnarandstaðan fer með meirihluta í þremur þingnefndum og var samið um skiptingu á milli flokkanna og niðurstaðan að Miðflokkurinn stýrði umhverfis- og samgöngunefnd. Mikil óánægja var á meðal nefndarmanna að Bergþór tæki við formennsku á ný en meirihlutinn hefur farið þá leið, samkvæmt stjórnarandstöðuflokkunum, að ef þeir hefðu greitt atkvæði gegn Bergþóri, þá liti meirihlutinn svo á að ekkert samkomulag væri um formennsku í nefndum hjá minnihlutanum. Tæki þá meirihlutinn yfir formennsku í öllum nefndum.

Líkt og áður segir, þá hefur minnihlutinn verið gagnrýndur harðlega. Illugi Jökulsson segir að traust á Alþingi sé lítið eftir að Bergþór settist í formannsstól. Þá spurði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins á Facebook-síðu sinni hvort minnihlutinn standi ekki undir ábyrgð? Halla Signý sagði: „Bergþór komst þannig inn sem formaður mótakvæðalaust af hálfu minnihlutans. Í skugga Mee Too ráðstefnunnar sem nú er haldinn í Hörpunni ! en í Alþingi er yfirskrift dagsins – ME AND MY FRIEND”“

Hleypti þetta illu blóði í marga stjórnarandstöðuþingmenn sem létu í sér heyra á Facebook-síðu Framsóknarmannsins. Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar byrjaði og sagði: „Hér hlýtur þú einfaldlega að vita betur.“ Og bætti svo við á öðrum stað: „Að reyna að slá sig til riddara í þessu máli á kostnað minnihlutans er aumt.“

Þá sagði Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata:

„Viltu vinsamlegast hætta að kenna stjórnarandstöðunni um þetta. Þú veist alveg hvaða hótanir voru í gangi af hálfu stjórnarflokkanna.“

Halla Signý spurði Björn Leví þá á móti: „Er ekki Miðflokkurinn i stjórnarandstöðunni?“

Björn Leví svaraði: „Viltu ekki segja öllum hvað hefði gerst ef hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu hafnað Bergþóri? Þú veist, það sem var sagt í fréttum um daginn? Ertu sátt við að standa við þá hótun? Finnst þér eðlilegt að nota slíkar hótanir?“

„Hverju er ég að hóta?“ spurði Halla Signý.

„Þú setur þetta á minnihlutann. Þar með sér ég þær hótanir sem við fengum frá meirihlutanum á þig líka. Vissir þú kannski ekki af þeim? Þú myndir kannski segja aðra hluti ef þú vissir af þeim hótunum?“ Þá bætti Björn Leví við á öðrum stað:

„Þú veist alveg eins vel og ég að hótunin frá Miðflokki var að setja allt í uppnám ef þeir fengu ekki að setja Bergþór í formannsstól aftur. Orkupakkamálið var aðallega til þess að sanna að þau gætu sett þingið í uppnám ein og óstudd.

Þetta er hótunin sem er sett upp á móti samkomulaginu sem, ef hefði verið tekið upp, hefði ekki breytt neinu. Engu.

Þið fórnuðuð þessu öllu fyrir ekkert og bættuð hótunum við til hinna í minnihluta að auki, tókuð þannig þátt í ofbeldi Miðflokksins. Til hamingju með það. Vonandi sefur þú vel á nóttunni.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata lét einnig í sér heyra og sagði:

„Að reyna að klína formennsku Bergþórs á minnihlutann eftir allt sem á undan er gengið er alger lágkúra. Talaðu við fólkið þitt. Dragðu í land núna áður en við förum öll með tölu að tala eins og okkur lystir.“

Að lokum tók Helga Vala Helgadóttir til máls og benti á eftirfarandi:

„Halla mín, meirihlutinn hefur fimm atkvæði, miðflokkur tvö, samfylking eitt og viðreisn eitt. Hvernig í veröldinni áttu flokkarnir tveir að koma að öðrum formanni? Við reyndum það í vetur en þið, þar á meðal fulltrúi framsóknar greiddi hins vegar atkvæði með tillögu miðflokks. Þið eruð með meirihluta og berið því ábyrgð.“

Nýjast