Algjört „blackout“

„Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á bar­inn og einum og hálfum sól­ar­hring eft­ir. Það er algjört „blackout“. Algjört minnis­leysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upp­tök­urn­ar, ég týndi föt­unum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjand­anum gengur á þarna,” segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins um kvöldið fræga á Klaustur bar þann 20. nóvember.

Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, voru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi. Þar ræddu þeir endurkomu sína til þingstarfa í gær og komu víða við.

Báðir í áfengisbindindi

„Svo er það hitt. Það er reiðin í röddinni á þessum manni sem þarna talar, hún er mér áhyggjuefni. Það er þess vegna sem ég hef verið að leita mér aðstoðar. Það er þess vegna sem ég hef ekki smakkað áfengi síðan 20. nóvember, vegna þess að ég vil komast að því hvað þarna gerðist áður en einhver önnur skref eru tekin. Ég hef talað við vini og kunningja og fjölskyldu og það eru allir sammála um það að þessi sem þarna talaði er einhver annar maður en við þekkjum venjulega,“ segir Gunnar Bragi, sem telur þetta þó ekki vera dæmi um alhóhólisma, þetta væri eitthvað annað þar sem þetta hefði aldrei komið fyrir áður.

„Ég hef átt viðtöl við áfengisráðgjafa og niðurstaða þess var að ég setti mig í ótímabundið áfengisleyfi. Niðurstaða þeirra greininga var að ég væri ekki alkóhólisti ef svo má segja og ég taldi það bara ekki réttlætanlegt. Við erum búin að ræða það mikið inni á þingi und­an­farna mán­uði að á meðan 600 manns eru á biðlista hjá SÁÁ þá ætla ég ekki að fara í með­ferð til að haka við ein­hver box. Það liggur fyrir að ég er í þessu bindindi og ef ég verð í vandræðum með það þá auðvitað munstra ég mig beint í meðferð,“ segir Bergþór.

Viðtalið í heild sinni er að finna hér: